Á Suðurlandi er úrval spennandi safna og sýninga þar sem hægt er að glöggva sig á sögu fólksins í landshlutanum, fræðast um eldvirknina á svæðinu og njóta menningar og listar. Er ekki tilvalið að drekka í sig sunnlenska menningu í páskafríinu?
Markaðsstofa Suðurlands hefur tekið saman menningarstaði sem hægt er að heimsækja um páskana.
Jarðhitasýning ON í Hellisheiðarvirkjun býður gestum tækifæri til að kynnast jarðvarma og sjálfbærri orku á Íslandi. Sýningin er staðsett í einni stærstu jarðhitavirkjun heims, umkringd stórbrotinni íslenskri náttúru með mosa og hrauni.
Jarðhitasýningin er opin klukkan 9-17 alla daga í páskavikunni.
Listasafn Árnesinga er sannkölluð menningarperla í Hveragerði. Þar eru settar upp metnaðarfullar sýningar innlendra og erlendra listamanna, og hefur safnið verið í samstarfi við önnur söfn um árabil. Sýningarstefnan er margbreytileg en oft með skírskotun í Suðurlandið.
Listasafnið er opið klukkan 12-17 alla daga í páskavikunni, nema á mánudögum.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er einn merkasti sögustaður Íslands, þar sem Alþingi var stofnað árið 930 og starfaði í nærri 900 ár. Svæðið er einnig þekkt fyrir einstaka jarðfræði, þar sem Norður Ameríku- og Evrasíuflekarnir mætast og mynda stórbrotið landslag.
Þjóðgarðurinn hefur komið á fót Gestastofu á Haki. Gestastofan hýsir gagnvirka sýningu sem kallast Hjarta lands og þjóðar þar sem gestir geta fræðst um sögu Alþingis, stjórnarhætti og náttúruundur Þingvalla á fjölbreyttan og lifandi hátt.
Gestastofan er opin klukkan 9-18 alla daga í páskavikunni.
Skálholt er einn merkasti sögustaður Íslands með djúpa tengingu við þjóðina. Þar var eitt af tveimur biskupssetrum landsins og þar var miðstöð kristni, menntunar, menningar og stjórnsýslu frá 11. öld til ársins 1796. Í Skálholti störfuðu margir af fyrstu biskupum Íslands.
Skálholt býður upp á leiðsagnir allan ársins hring undir stjórn kirkjuvarða, sem veita gestum áhugaverða fræðslu.
Skálholt er opið klukkan 9-18 alla daga í páskavikunni.
Dýragarðurinn Slakki er notalegur húsdýragarður staðsettur í Laugarási í Biskupstungum. Hann er vinsæll áfangastaður fyrir fjölskyldur sem vilja njóta samveru með dýrum í fallegu sveitaumhverfi.
Slakki er opnar á Skírdag eftir vetrarlokun og verður opinn klukkan 11-18 alla daga eftir það í páskavikunni.
Sólheimar eru einstakt sjálfbært samfélag í Grímsnesi. Þeir eru þekktir fyrir umhverfisstefnu og sjálfbærni. Samfélagið leggur áherslu á vistvæna framleiðslu og hringrásarhagkerfi og gestir fá tækifæri til að kynnast þessari einstöku sýn.
Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun. Einnig eru á staðnum bakarí, matvinnsla, verslun, listhús, kaffihús og gistiheimili.
Opið er í Sólheimum klukkan 11-16 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.
Heimsókn á Byggðasafn Árnesinga er eins og að stíga um 150 ár aftur í tímann í fallega sjávarþorpinu á Eyrarbakka. Safnið hefur það mikilvæga hlutverk að varðveita sögulegar minjar um atvinnuhætti, menningu og daglegt líf í Árnessýslu.
Byggðasafnið eru opið klukkan 13-17 alla daga í páskavikunni.

Ljósmynd: South.is.
Við sjávarþorpið Eyrarbakka stendur hið tígulega hús Bakkastofa. Þar bjóða hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson gestum í frásagna- og tónlistarveislu.
Hjónin leiða saman hesta sína á Bakkastofu með sögu Íslendinga og þorpið Eyrarbakka í forgrunni. Gestarýmið á Bakkastofu er einstaklega hlýlegt, búið glæsilegum húsbúnaði í gömlum stíl. Ásta og Valgeir bjóða gestum ýmist á Bakkastofu, í Húsið eða á veitingastaðinn Rauða húsið.
Valgeir heldur tónleika í Dómkirkjunni þann 17. apríl og Eyrarbakkakirkju þann 19. aprílásamt Joel Durksen gítarleikara og Kristrúnu Steingrímsdóttur söngkonu. Hægt er að nálgast miða á tix.is.
Í gamla þorpinu á Stokkseyri er menningarhúsið Brimrót. Þar er notalegt rými þar sem rithöfundar, listamenn og gestir koma saman.
Brimrót hýsir blómlega menningarviðburði, svo sem bókaupplestra, listsýningar, tónleika og vinnustofur.
Í Brimrót verður borðspilastund á sumardaginn fyrsta, 24. apríl, klukkan 13-17.
Á Veiðisafninu á Stokkseyri geta gestir kynnst veiðimenningu og dýrategundum frá Íslandi, Grænlandi og Afríku. Safnið var stofnað árið 2004 af Páli Reynissyni og markmiðið að miðla veiðiþekkingu og gefa áhugasömum kost á að skoða ýmsar dýrategundir í návígi.
Veiðisafnið er opið klukkan 11-18 alla daga í páskavikunni.
Hespuhúsið er heillandi handverkssetur staðsett í sveitum Ölfuss, rétt utan við Selfoss. Þar geta gestir skyggnst inn í heim jurtalitunar, þar sem íslensk ull er lituð með náttúrulegum litarefnum sem eru unnin úr plöntum, mosa, berjablöðum og jafnvel sveppum, allt úr íslenskri náttúru.
Hespuhúsið er opið klukkan 10-17 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.

Ljósmynd: South.is.
Á Sviðinu á Selfossi fara fram spennandi viðburðir, þar á meðal tónleikar, leiksýningar, partý og aðrir menningarviðburðir. Á miðhæð Friðriksgáfu er skemmtistaðurinn Miðbar, sem býður upp á skemmtilegt andrúmsloft og fjölbreytta afþreyingu.
17. apríl verður Mamma Mia partý á Sviðinu og þann 19. apríl verða fjölskyldutónleikar að deginum og partýtónleikar um kvöldið með Herra Hnetusmjöri.
Fischersetrið á Selfossi, er einstakt safn tileinkað einum frægasta skákmanni allra tíma Bobby Fischer, heimsmeistara í skák. Safnið er staðsett í nálægð við kirkjugarðinn þar sem Fischer hvílir og býður gestum að kynnast ótrúlegu lífi hans í heimi skáklistarinnar.
Hægt er að heimsækja Fischersetrið með því að hafa samband í síma: 894 -1275.
Skyrland er upplifunarsýning í Mjólkurbúinu á Selfossi. Þar eru gestir leiddir í gegnum þúsund ára sögu íslenska skyrsins á gagnvirkan hátt. Skyrið hefur fylgt þjóðinni frá fyrstu landnámsárum og gegnt mikilvægu hlutverki í daglegu lífi Íslendinga, bæði sem næringarríkur matur og hluti af menningararfi þjóðarinnar.
Skyrland er opið klukkan 10-18 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.
Í sveitasælu Flóahrepps leynist Gallery Flói þar sem listakonan Fanndís vinnur með gler sem hún bræðir og formar yfir opnum eldi í glerperlur og aðra listmuni.
Gallery Flói er ekki einungis verslun og vinnustofa heldur lifandi rými þar sem gestir fá að skyggnast inn í sköpunarferlið sjálft og tengjast listinni beint. Hver hlutur er einstakur, með sína eigin sögu, og engin heimsókn er eins.
Gallerýið verður opið á skírdag og föstudaginn langa klukkan 10-16:30 og laugardaginn fyrir páska klukkan 10-16.
Þingborg Ullarverslun er einstakur staður fyrir þau sem hafa áhuga á íslenskri ull, handverki og menningararfi. Verslunin hefur verið staðsett í gamla samkomuhúsinu Þingborg og rekin af heimafólki síðan 1991.
Þingborg er opin klukkan 10-17 alla daga í páskavikunni, nema á föstudaginn langa og páskadag.
Uppspuni er fyrsta smáspunaverksmiðja landsins og sannkölluð perla fyrir alla sem unna íslenskri ull, sjálfbærni og handverki. Verksmiðjan er staðsett í blómlegri sveit rétt austan við Þjórsárbrú. Þar hafa hjónin Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson byggt upp fjölskyldufyrirtæki sem sameinar hefðbundinn búskap og nýsköpun í ullariðnaði.
Uppspuni er opinn alla virka daga klukkan 9:30-15 og á laugardaginn fyrir páska klukkan 10-13, lokað á föstudaginn langa og páskadag.

Hellarnir við Hellu eru ævafornir, manngerðir hellar og má með sanni segja að fundur þeirra hafi ögrað fyrri hugmyndum um landnám Íslands.
Tólf fornir hellar hafa fundist í landi Ægissíðu við Hellu og er hægt að skoða nokkra þeirra í fylgd leiðsögumanns. Hellarnir eru friðlýstir og innihalda stórmerka krossa, gamlar veggjaristur, myndir, syllur og innhöggvin sæti.
Hellarnir eru opnir alla daga í páskavikunni og ferðir eru klukkan 10-12-14, leiðsögn fer fram á ensku.
Midgard Base Camp á Hvolsvelli er ekki aðeins gisti- og ævintýrasetur, heldur lifandi vettvangur fyrir menningu og mannlíf þar sem viðburðir skipa stóran sess.
Midgard Adventure verður 15 ára þann 16. apríl. Áfanganum verður fagnað með fjölbreyttum viðburðum allt árið, en fyrsta afmælisdagskráin fer fram einmitt á afmælisdaginn. Hátíðin hefst kl. 16:00 með opnu húsi og afmælisköku þar sem gestir geta kíkt við, hitt starfsfólkið og fengið sér sætt og gott. Þá tekur við létt og skemmtilegt pub quiz, og að því loknu byrjar tónlistaveisla með Vinum Midgard. Frítt inn.
Lava Centre, eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands, er fjölbreytt afþreyingar- og upplifunarmiðstöð helguð þeim gríðarlegu náttúruöflum sem hófu að skapa Ísland fyrir nærri 20 milljón árum síðan og eru enn að.
Þar lifna eldgos, jarðskjálftar og möttulstrókar við í áhrifaríkri og gagnvirkri sýningu. LAVA Centre býður upp á upplifun sem höfðar til allra aldurshópa og leitast við að skýra hvernig náttúran hefur mótað eldfjallalandið Ísland á mörkum tveggja jarðskorpufleka.
Lava Centre er opið klukkan 9-17 alla daga í páskavikunni.
Eldheimar er gosminjasýning. Sýningin miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, sem án efa telst til stærstu náttúruhamfara Íslandssögunnar.
Skyggnst er inn í mannlífið og umhverfið í Vestmannaeyjum fyrir gos og hvernig náttúruhamfarirnar 1973 gripu inn í samfélagið og líf fólksins. Nær allir íbúar Heimaeyjar urðu að yfirgefa heimili sín í skyndi og flýja eyjuna. Margir sáu húsin sín, sem og megnið af eigum sínum aldrei aftur.
Safnið er opið klukkan 13-16:30 alla daga í páskavikunni.
SEA LIFE Trust Beluga Whale Sanctuary er fyrsta dýraathvarfið í heiminum sem veitir hvölum sem áður voru notaðir í sjávardýrasýningar upp á öruggt og náttúrulegt heimili.
Skjólið er staðsett í Klettsvík í Vestmannaeyjum og er rekið af góðgerðarsamtökunum SEA LIFE Trust með stuðningi frá Merlin Entertainments og Whale and Dolphin Conservation.
Skjólið hýsir nú tvo mjaldra, Litlu Hvít og Litlu Grá, sem voru áður í haldi í Kína. Þeir voru fluttir yfir 6.000 mílur til Íslands árið 2019 og búa nú í 32.000 fermetra sjókví sem veitir þeim meira frelsi og náttúrulegra umhverfi en áður. Markmiðið er að bæta velferð hvalanna, stuðla að rannsóknum og fræðslu og vernda mjaldra í náttúrunni.
Sea Life Trust er opið klukkan 11-15 alla daga í páskavikunni.
Skógasafn er eitt stærsta minjasafn Íslands. Það varðveitir ríkulegan menningararf Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga, allt frá landnámi til samtímans, og býður gestum upp á einstaka sýn inn í íslenskt samfélag.
Skógasafn er opið klukkan 10-17 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.
Kötlusetur er menningar- og fræðslusetur í hjarta Víkur. Þar má fræðast um kraftmikil náttúruöfl og sögu fólksins á svæðinu. Setrið er staðsett í hinu sögufræga húsi Brydebúð og gegnir einnig hlutverki upplýsingamiðstöðvar Kötlu jarðvangs.
Kötlusetur er opið klukkan 12-17 alla daga í páskavikunni, nema á föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum.
Lava Show er einstök og verðlaunuð sýning sem býður gestum að upplifa raunverulega hraunrennsli í öruggu umhverfi innandyra.
Í sýningunni er hraun hitað upp í allt að 1100°C (2000°F) og látið renna yfir sérstakt yfirborð, sem gerir gestum kleift að sjá, heyra og finna fyrir hita hraunsins. Þessi sýning er ekki aðeins sjónræn upplifun heldur einnig fræðandi, þar sem gestir fá innsýn í jarðfræði og áhrif eldgosa á landslag Íslands.
Sýningar hjá Lava Show í Vík verða klukkan 11-13-15-17-19 alla daga í páskavikunni.

Ljósmynd: South.is.
Skaftárstofa er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir vestursvæði hans og staðsett rétt við Kirkjubæjarklaustur. Hún er mikilvægur upplýsingavettvangur fyrir ferðalanga sem vilja kynnast náttúru og sögu svæðisins, og veitir innsýn í eitt áhrifamesta eldfjalla- og jökulsvæði Íslands.
Skaftárstofa er opin klukkan 9-16:30 alla daga í páskavikunni.
Skaftafellsstofa er opin allan ársins hring og veitir gestum fræðslu og upplýsingar um svæðið við Vatnajökul.
Vatnajökull er stærsti jökull Íslands og sá næststærsti í Evrópu. Hann þekur um 8% af flatarmáli landsins og nær yfir mörg eldfjöll, dali og ótrúlega fjölbreytt landslag.
Í Skaftafellsstofu eru upplýsingar um jarðfræði og náttúru í Skaftafelli. Sýnd er mynd um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og einnig er hægt að skoða muni úr örlagaríkum leiðangri breskra háskólastúdenta árið 1952.
Skaftafellsstofa er opin klukkan 9-17 alla daga í páskavikunni.
Þórbergssetur í Suðursveit er safn tileinkað rithöfundinum Þórbergi Þórðarsyni (1888-1974). Þetta magnaða safn er staðsett við fæðingarstað Þórbergs á Hala og fer ekki framhjá vegfarendum þar sem hlið hússins sem snýr að hringveginum er þakin bókatitlum skáldsins.
Á safninu má kynnast lífi og skrifum Þórbergs ásamt sögu og menningu Suðursveitar. Sagan vaknar til lífsins á safninu með handritsbrotum, minningum Þórbergs og gagnvirkum sýningum. Að auki er Þórbergssetur menningarmiðstöð þar sem fjölbreyttir viðburðir og fyrirlestrar eru haldnir. Þar er veitingahús með frábærum mat og stórbrotnu útsýni um Suðursveit.
Þórbergssetur er opið klukkan 7:30-20 alla daga í páskavikunni.
Bókasöfn eru ekki einungis staður til að leigja bækur, þau eru samfélagsstaðir. Mörg þeirra halda fjölbreytta dagskrá bókaupplestra og menningarviðburða. Opnunartími safnanna er misjafn í dymbilviku og best að setja sig í samband við söfnin áður en þau eru heimsótt.