Leikritið Innkaupapokinn eftir leikhópinn Kriðpleir hefur verið sýnt á fjölum Borgarleikhússins við góðar undirtektir. Leikritið er byggt á sögunni Mundu töfrana eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Elísabet, sem býr í Hveragerði, segir það æðislega tilfinningu að leikrit sé gert upp úr verki hennar.
Var 30 ár að skrifa verkið
Verkið sjálft Mundu töfrana er ekki mjög langt en Elísabet var þó lengi að skrifa það, eða um 30 ár. „Ég skrifaði það með einhverju öðru af því ég er búin að gefa út um 30 bækur meðfram en ég var alltaf að skrifa þetta leikrit,“ segir Elísabet í samtali við Dfs.is.
Aðspurð að því hvernig það kom til að þetta leikrit var sett upp segist Elísabet vera náskyld Ragnari Ísleifi Bragasyni, meðlimi Kriðpleirs.
„Hann kom í heimsókn til þess að fá lánaðar hjá mér gestabækur ef ég ætti. Þá barst í tal að ég ætti leikritið Mundu töfrana. Ég sagði „af hverju setjiði það ekki bara upp?“ og hann sagði „já hvernig væri það?“ Svo tók hann leikritið með sér og ætlaði að athuga hvernig hin í hópnumtækju í það. Þeim leist vel á leikritið og sóttu um og fengu 18 milljónir til þess að setja það á svið. Það var æðislegt,“ segir Elísabet stolt.
Leitin að barninu
Mundu töfrana er um litla stelpu sem missir pabba sinn. Í kjölfarið felur hún sig í garði og grætur ekki af því hún vill ekki horfast í augu við missinn. Svo er hún alveg að deyja í garðinum. Hún er bara sjö ára en samt eru liðin 30 ár. Þá kemur Ella, sem er hennar æðra sjálf, og bróðir hennar og þau fara að leita að tári til að færa barninu í garðinn svo það geti grátið og losnað úr álögum sorgarinnar og leyft henni að fljóta í staðinn fyrir að vera föst í garðinum. Þetta er leitin að barninu að sögn Elísabetar.
Innkaupapokinn er bæði gamanleikur og harmur. Sex leikarar eru í verkinu og snýst fyrri partur þess um það hvernig þau geti sett Mundu töfrana á svið og þau vita ekkert hvernig þau eiga að fara að því. Í seinni hluta leika þau verkið.
Persóna sem er innkaupapoki
Nafnið á leikritinu, Innkaupapokinn, kemur frá persónu sem er í verkinu. „Það er persóna í leikritinu sem er innkaupapoki til að sýna raunveruleikann sem við þurfum að kljást við. Það þýðir ekkert að vera í töfraheimi og ævintýrum heldur verðum við að burðast með innkaupapoka allt okkar líf. Pabbinn kemur í líki innkaupapoka sem er ákveðinn raunveruleiki,“ segir Elísabet.
Hafa ekki hlegið jafn mikið árum saman
Innkaupapokinn hefur fengið mjög góða dóma. „Fólk segir að það hafi ekki helgið svona mikið árum saman. Þetta verður mjög fyndið hjá þeim, sérstaklega fyrri hlutinn þegar þau eru að reyna að fatta hvernig þau eigi að setja leikritið á svið,“ segir Elísabet að lokum og tekur fram að enn séu nokkrar sýningar eftir í apríl og maí og að fleiri verði bætt við í haust ef aðsókn er góð.