5.3 C
Selfoss

Pylsupítsa

Vinsælast

Jóhann Valdimarsson er matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á að þakka Þóru mágkonu minni fyrir áskorunina. Ekki átta ég mig samt á því á hvaða vegferð hún er að skora á mig, þar sem ég kann um það bil fjórar uppskriftir. Sjálfsagt vakir fyrir henni að koma höndum yfir háleynilegar uppskriftir eins og Jóabrauðið en þá ósk hennar mun ég ekki uppfylla í þetta skiptið. Þess í stað mun ég deila fjölskylduuppskriftinni að pylsupítsu sem er uppskrift sem móðir mín gaf börnum sínum með móðurmjólkinni. Ég held að á ekkert systkina minna sé hallað þegar því er haldið fram að ég sé sá þeirra sem hefur nýtt uppskriftina oftast.

Ég byrja á að telja upp innihaldsefnin og tek þau frekar til umfjöllunar í verklýsingu en magnið miðast við eina pítsu á heilli bökunarplötu.

• Rautt Kornax hveiti, 8-10 dl.

• Þurrger, einn poki eða rúmlega 10 grömm

• Olífuolía Euroshopper u.þ.b. 2 matskeiðar

• Volgt vatn eftir þörfum

• Tómatsósa Felix

• Prima Pizzukrydd

• McCormick Garlic powder

• SS pylsur 3,5-4 stk.

• Íslenskur brauðostur

Fyrsta skrefið er að blanda saman hveiti og geri saman í plastskál. Skutlið svo olíunni yfir þá blöndu ásamt vatninu. Ég byrja oft með deigið frekar blautt og bæti hveiti í þangað til að hægt er að hnoða deigið. Margir nota salt og sykur í pítsubotna en ég lít á það sem leikþátt sem skilar litlu öðru en sóun á hráefnum.

Þegar deigið hefur svo hefast í ca. klukkustund er það flatt út á bökunarplötu og tómatsósunni svo smurt yfir botninn með skeið. Það er mikilvægt að vera ekki að fikta í uppskriftinni með því að nota pítsusósu, þetta þarf að vera „hrein“ tómatsósa til að rétt niðurstaða náist.

Að þessu loknu er kryddinu dreift yfir sósuna. Áður fyrr notaði ég Italian seasoning frá McCormick í stað pizzakryddsins en það hefur því miður ekki fengist um nokkurt árabil. Þessu næst er þunnt niðursneiddum pylsum dreift jafnt yfir sósuna.

Síðasta skrefið áður en pítsan er bökuð er svo að dreifa brauðostinum yfir en hann rífið þið niður á rifjárni sem er til á flestum heimilum. Það sama gildir um ostinn og sósuna en það er alveg bannað að stytta sér leið með því að kaupa niður rifinn pítsaost, slíkar tilraunir munu aldrei skila góðri niðurstöðu. Rétt er að benda á að það má nýta neðsta part brauðostsins sem ekki nýtist í sneiðar en honum er hægt safna í frysti og gera pítsu þegar nægjanlegt ostmagn er til í frystinum.

Lokaskrefið er svo að baka pítsuna í 200°C heitum ofni á blæstri þar til osturinn er farinn að brúnast. Gætið þess að leyfa pítsunni að kólna aðeins áður en hennar er neytt. Undirritaður hefur alltof oft brotið þá reglu með þeim afleiðingum að sósan brennir á manni góminn sem stórskemmir annars ánægjulega matarupplifun.

Mig langar að skora á tískukónginn og matgæðinginn Sævar Örn Gíslason en ég þekki fáa sem eru eins duglegir að elda heima og efast ekki um að hann lumar á mörgum gourmet uppskriftum.

Nýjar fréttir