Sunnlenska hljómsveitin Stuðlabandið eru höfundar og flytjendur Þjóðhátíðarlagsins í ár. Þetta var tilkynnt í útvarpsþættinum Brennslan á FM957 í morgun. Mikil spenna ríkir alltaf fyrir því hver fær heiðurinn að semja lagið en hátíðin er stærsta og vinsælasta útihátíð landsins.
Hljómsveitin hefur verið að gera það gott á undanförnum árum og hefur mikla reynslu af því að spila á útihátíðum. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Magnús Kjartan Eyjólfsson, Marínó Geir Lilliendahl, Baldur Kristjánsson, Bjarni Rúnarsson, Fannar Freyr Magnússon, Sigþór Árnason og Stefán Ármann Þórðarson.
Magnús Kjartan söngvari Stuðlabandsins segir í samtali við Dagskrána að það hafi ekki tekið langan tíma að sannfæra þá um að semja Þjóðhátíðarlagið í ár. „Þjóðhátíðarnefndin hafði samband við okkur í haust og sögðu að það væri kominn tími á að við fengjum að spreyta okkur á þessu. Við höfum spilað á Þjóðhátíð síðan 2016 í öll þau skipti sem hún hefur verið haldin.“
Bandið samdi samtals 15 hugmyndir að lögum og valdi svo eitt aðallag sem þeim fannst henta best. „Það er aldrei að vita nema það komi út Þjóðhátíðarplata í staðinn fyrir Þjóðhátíðarlag, það hefur aldrei verið gert áður. Við eigum allavega nóg af lögum,“ segir Magnús Kjartan.
Magnús segir lagið vera gott og vandað popplag. „Við höfum alveg bullandi trú á þessu og hlökkum til að leyfa fólki að heyra.“
Lagið kemur út 15. maí og vill Magnús ekki gefa það nákvæmlega upp um hvað það fjallar en það tengist að sjálfsögðu Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.