Háskólafélag Suðurlands, Fræðslunet Suðurlands og menningar- og upplýsingadeild Árborgar hafa tekið höndum saman og standa fyrir átakinu Gefum íslensku séns.
Átakið hófst formlega með kynningarfundi í Fjölheimum á Selfossi í gær.
Grunnstefið í Gefum íslensku séns er að hvetja Íslendinga til að tala íslensku við fólk af erlendum uppruna en skipta ekki strax yfir í ensku. Með þessu er hægt að auka vitund fólks fyrir máltileinkun og ekki síður auka vitund íslenskra móðurmálshafa fyrir því hvað það kann að fela í sér að læra íslensku. Átakinu er einnig ætlað að varpa ljósi á þá staðreynd að allir geta lagt sitt af mörkum við að hjálpa fólki að læra málið. Það þarf ekki próf í íslenskum fræðum til þess.
Verkefnið Gefum íslensku séns varð til hjá Háskólasetri Vestfjarða og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, bæði innanlands og utan. Þessi sunnlenska útgáfa er unnin með samþykki og velvild Vestfirðinganna.
Markmiðið er að gera Árborg að íslenskuvænu samfélagi enda samfélagið orðið afar fjölbreytilegt og mikilvægt að íslenskan endurspegli þann raunveruleika.