Úlfar Örn Valdimarsson er gestalistamaður marsmánaðar í Gallery Listaseli. Sýningu sína kallar hann LJÓSBLIK en þar sýnir hann verk sem innblásin eru af næturhimninum og myrkrinu, ekki síst í sveitinni. Úlfar hefur fjölbreytta nálgun í list sinni. Hann teiknar mikið með pennastöng, bleki og vatnslit ásamt því að vinna málverk bæði með akrýl og olíulitum. Hann hefur líka fengist við gerð lágmynda úr ýmsum málmum og skúlptúra úr málmum og gleri.
„Á hverjum vetri undanfarin ár hef ég málað verk með svörtum eða dimmbláum (næturbláum) lit. Næturhimininn, hvort sem tunglið veður í skýjum, eða himininn heiðskír og stjörnubjartur, heillar mig. Myrkrið, sem stundum er svart við fyrstu sýn er það kannski ekki, þegar staldrað er við birtast allir þessir margbreytilegu litir,“ segir Úlfar Örn.

Úlfar Örn er fæddur í Reykjavík árið 1952. Hann stundaði nám í auglýsingadeild MHÍ í Reykjavík og framhaldsnám í myndskreytingum í Konstfack listaháskólanum í Stokkhólmi. Hann starfaði sjálfstætt við hönnun og auglýsingagerð í ýmsu formi í mörg ár ásamt því að iðka list sína en undanfarin ár hefur hann helgað sig myndlistinni. Hann er með vinnustofu og gallerí í Bjarmalandi í Laugarási þar sem hann er búsettur. Þar er opið flesta daga eða eftir samkomulagi.

Laugardaginn 22. mars nk. verður Úlfar til viðtals á milli kl. 13 og 16 í Gallery Listaseli í nýja miðbænum á Selfossi. Sýningin Ljósblik stendur til 28. mars og er opin alla daga nema mánudaga.