5.3 C
Selfoss

Ánægja íbúa Hveragerðisbæjar dalað

Vinsælast

Í lok hvers árs framkvæmir Gallup þjónustukönnun þar sem mæld er ánægja íbúa landsins með þjónustu sveitarfélaganna sem þau búa í. Tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins er boðin þátttaka hverju sinni og hefur Hveragerðisbær verið þátttakandi í þessari þjónustukönnun nánast frá upphafi, að undanskildu einu ári en það var fyrir árið 2023 og var það ákvörðun meirihluta Framsóknar og O-listans að taka ekki þátt í það skipti. Könnunin fyrir árið 2024 var gerð í lok þess árs og voru niðurstöðurnar birtar í febrúar þetta ár.

Í könnuninni eru íbúar spurðir út í ánægju þeirra með ýmsa þætti sem snúa að þjónustu sveitarfélagsins, til dæmis hver ánægja þeirra er með málefni skólanna, þjónustu við barnafjölskyldur og eldri borgara, með aðstöðu til íþróttaiðkunar og með gæði umhverfisins í nágrenni við heimilið, svo eitthvað sé nefnt.

Fram til ársins 2022 hafði Hveragerðisbær mælst efst í nær öllum þeim málaflokkum sem spurt er út í og mældist ánægja íbúa Hveragerðisbæjar fyrir ofan meðaltal sveitarfélaganna í heild í öllum málaflokkum, í rauninni voru íbúar Hveragerðisbæjar þeir ánægðustu á landinu samkvæmt þjónustukönnuninni árið 2021, sem var síðasta heila árið sem D-listinn var í meirihluta. En breyting virðist hafa orðið á eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022 og hefur ánægja íbúa Hveragerðisbæjar með þjónustu bæjarins samkvæmt þjónustukönnuninni dalað í öllum málaflokkum þannig að marktækur munur er á í mörgum málaflokkum. Þegar horft er til ánægju íbúa Hveragerðisbæjar samanborið við önnur sveitarfélög fyrir árið 2024, sést að Hveragerðisbær er komið um eða undir meðaltalið í nær öllum málaflokkum.

Áberandi er hversu óánægðir íbúar bæjarins eru með aðstöðu til íþróttaiðkunar og þarf engan að undra, loforð ofan á loforð hafa verið svikin í þeim efnum síðan að Framsókn og O-listinn komust í meirihluta fyrir að verða 3 árum. Ekkert hefur gerst í uppbyggingu aðstöðu til íþróttaiðkunar, en það stendur þó til bóta með byggingu gervigrasvallar og mögulegri viðbyggingu við íþróttahúsið, þó að forgangsröðunin þar sé sérstök. Sama gildir um leikskólamálin og þjónustu við barnafjölskyldur, það má að öllum líkindum rekja vaxandi óánægju í þeim málaflokkum til lengri biðar eftir leikskólaplássi fyrir börn og viðbyggingarinnar við leikskólann Óskaland sem hefur klúðrast með undraverðum hætti bæði hvað framkvæmdina varðar og þann samning sem gerður var vegna byggingarinnar, frekar en sjálf starfsemin á leikskólum bæjarins sem er til fyrirmyndar.

Það er áhugavert að rýna í niðurstöðurnar, þær gefa góða vísbendingu um hvert álit íbúa Hveragerðisbæjar er með þjónustu sveitarfélagsins, þannig hefur þjónustukönnunin alla jafna verið notuð til að skoða og bæta það sem betur má fara í þjónustu bæjarins. Við sem sitjum í bæjarstjórn eigum að nýta okkur þessar mælingar til að bæta það sem þarf að bæta þannig að íbúar Hveragerðisbæjar skipi að nýju efstu sætin þegar ánægja þeirra er mæld.

Nú er rúmt ár í næstu sveitarstjórnarkosningar og þrátt fyrir að núverandi meirihluti hafi sagt eftir að þjónustukönnunin fyrir árið 2022 kom út aðeins ætla að kaupa þessa könnun Gallups annað hvert ár, þá vona ég að Hveragerðisbær muni taka þátt í þessari könnun að ári, annað væri óeðlilegt.

Friðrik Sigurbjörnsson,

bæjarfulltrúi og oddviti D-listans í Hveragerði.

Nýjar fréttir