Miðvikudaginn 5. febrúar sl. opnaði ný félagsmiðstöð fyrir börn og unglinga í 5. – 10. bekk Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Félagsmiðstöðin Ztart er staðsett í Þjórsárskóla í Árnesi. Markmið félagsmiðstöðvarinnar er að auka félagslega hæfni, þroska og jákvæða sjálfsmynd barna og unglinga sem fæst með virkri þátttöku í starfi félagsmiðstöðvarinnar. „Félagsmiðstöðinni okkar er ætlað að stuðla að uppbyggilegum félagslegum samskiptum en einnig staður þar sem sækja má margs konar og fjölbreytta afþreyingu,“ segir í tilkynningu frá stöðinni.
Hans Alan Tómasson myndlistarmaður vann að hönnun og uppsetningu rýmisins síðustu misseri sem hefur tekist einstaklega vel. Félagsmiðstöðin Ztart er vel tækjum búin til frístundastarfs en mikil ánægja er meðal nemenda með Ztart. Einnig var útbúin Fab Lab-smiðja í sama rými, þar sem finna má þrívíddarprentara og geislaskera ásamt öflugum tölvubúnaði. Sveitarfélagið hefur því lagt góðan grunn að eflingu tómstunda- og félagsmála utan hefðbundins skólatíma. Óhætt er að fullyrða að nýja félagsmiðstöðin sé til mikillar fyrirmyndar fyrir samfélagið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Ztart er á Facebook og Instagram undir nafninu Félagsmiðstöðin Ztart eða Fel.ztart.
