Á vormánuðum munu framkvæmdir hefjast við uppsetningu á tveimur nýjum vatnsrennibrautum við sundlaugina í Þorlákshöfn. Þær verða hluti af núverandi barnarennibraut, þannig að í heildina verða brautirnar þrjár. „Nýju brautirnar verða glæsilegar og er mikil tilhlökkun hjá íbúum og gestum að geta farið salíbunu í brautunum,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu.
Kostnaðurinn við rennibrautirnar er um 150 milljónir króna. Hærri rennibrautin er tæplega 80 metra löng og 9,5 metra há. Verður hún með þeim hæstu hér á landi. Lægri brautin er rúmir 52 metrar og er lokuð með svokallaðri skál eða keilu áður en hún endar í sinni eigin innbyggðri lendingarlaug. Stigahúsið upp í brautirnar verður um 12 metra hátt, lokað og upphitað með sameiginlegum stiga fyrir báðar rennibrautirnar.
Ákveðið hefur verið að blása til nafnasamkeppni um heiti á rennibrautunum þremur.
Hugmyndum að nöfnum þarf að skila eigi síðar en föstudaginn 21. mars á netfangið ragnar@olfus.is