Birta Sólveig Söring Þórisdóttir hefur verið að gera það gott í leiklistinni eftir að hún útskrifaðist sem leikkona frá Listaháskóla Íslands árið 2024. Hún fékk veigamikið hlutverk beint eftir útskrift þar sem hún lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar. Hún lék einnig í áramótaskaupinu og tekur nú þátt í leikritinu Stormur sem frumsýnt var á stóra sviði Þjóðleikhússins 6. mars sl.
Ást og metnaður á æfingatímabilinu
Birta segir að æfingarnar á Stormi hafi gengið þrusuvel. Það hafi verið mikil ást og metnaður á æfingatímabilinu. „Þetta var sirka 12 vikna æfingaferli sem fólst í að skapa söngnúmerin með Lee Proud, danshöfundinum, Hafsteini Þráinssyni sem samdi tónlistina með Unu Torfadóttur og verkinu sjálfu með Unni Ösp Stefánsdóttur ásamt listræna teyminu,“ segir Birta í samtali við Dagskrána og bætir við að leikritið hafi nú þegar fengið mjög góðar viðtökur.
Leikritið er um vinahóp sem er að upplifa sitt fyrsta sumar eftir að hafa útskrifast úr framhaldsskóla. Þau finna fyrir tilhlökkuninni, pressunni og óvissunni sem því fylgir. Verkið snýst um Elísubetu sem er ung tónlistarkona og er leikin af Unu Torfadóttur. Við fylgjumst með álaginu sem hún upplifir við að ljúka við sína fyrstu plötu eftir að hafa gefið út vinsælasta lag ársins. Við fylgjumst einnig með vinahópnum hennar sem hangir yfirleitt saman í æfingarrými Elísabetar og eru öll að reyna að finna sitt pláss í lífinu. Elísabet áttar sig á því að hún er ástfangin af bestu vinkonu sinni Helgu og þarf Elísabet að taka ákvörðun um hvort hún ætli að láta hana vita af því. En þegar gleðin er í hámarki hjá vinunum virðist koma skellur sem breytir öllu.

Ljósmynd: Aðsend.
Mikið af nýjum andlitum í verkinu
Birta fór í prufu fyrir verkið ásamt mörgum öðrum og endaði á að fá hlutverk Tinnu, einnar úr vinahópnum í sýningunni.
Leikhópurinn er ungur og mikið af nýjum andlitum á sviðinu. Má þar nefna Birtu og bekkjarsystkini hennar úr LHÍ, þau Jakob Van Oosterhout og Berglindi Öldu Ástþórsdóttur. Aðrir nýir leikarar eru Salka Gústafsdóttir, Iðunn Ösp Hlynsdóttir og Marinó Máni Mabazza. Hinir í leikhópnum hafa unnið í húsinu talsvert lengur, t.d. Sigurbjartur Sturla, Hildur Vala, Kjartan Darri, Hallgrímur Ólafsson og Nína Dögg.
Birta segist alltaf geta lært af kollegum sínum. „Allir hafa mismunandi nálganir að vinnunni sinni og það er svo mikilvægt að prófa alls konar til að sjá hvað hentar manni sjálfum.“
Aðspurð að því hvernig henni finnist að standa á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu segir hún það vera sturlað en sé þó byrjuð að venjast því.
Hollt að búast ekki við neinu
Áður en Birta fékk hlutverk í Þjóðleikhúsinu var hún í hlutverki Auðar í Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar. Hún fékk hlutverkið beint eftir útskrift úr leiklistarskólanum. Hún segist ekki hafa búist við að fá svona veigamikil hlutverk eins fljótt og raunin varð.
„Mér fannst hollt að búast ekki við neinu. Þótti skynsamlegra að hafa „back-up plan“ og hugmyndir að verkefnum í vasanum sem ég hef ástríðu fyrir. En líka, þrátt fyrir að hafa fengið þessi tækifæri, er ég enn með fullan vasa sem ég mun líklegast sinna í framtíðinni.“
Hún segir ekkert leyndarmál liggja að baki velgengninni. „Ég finn mitt hjarta slá í þessum geira og hef lært alls konar nálganir að þessu listformi í náminu mínu sem ég held áfram að þróa, bæta og finna. Leikaravinnan verður aldrei fullklárað málverk. Þú ert stöðugt að vinna í forminu. Það er kannski leyndarmálið.“

Ljósmynd: Aðsend.
Tíminn í leiklistarskólanum frábær
Birta segir tímann í leiklistarskólanum hafa verið frábæran. „Ég kynntist mínum nánustu kollegum þar. Við fengum svo mikið út úr því að vinna öll saman, sérstaklega leikararnir og sviðshöfundarnir en oft líka dansararnir. Mér þykir óendanlega vænt um kennarana mína og hvað þau gáfu öll mikið af sér til að reyna að gefa okkur það nám sem við áttum skilið.“
Þegar Birta rifjar upp uppáhaldsminninguna sína úr skólanum sem hún tekur með sér út í lífið minnist hún á þegar bekkurinn hennar sýndi verk sem þau bjuggu til frá grunni. „Við vorum að sýna afrek okkar í Devised-verkinu sem við bjuggum til frá grunni á lokaárinu okkar. Mikið af listafólki kom á þessa sýningu og það var mikið stress í loftinu sem við höfðum ekki upplifað áður vegna þess að við vissum ekkert hvernig áhorfendur myndu upplifa hana. Þá tókum við hring og sögðum að það skipti ekki máli hvað þeim fyndist því við ætluðum að halda með þessari sýningu og standa saman.“

Ljósmynd: Aðsend.
Stórt að fara í prufur fyrir leikarabraut
Áhugi Birtu á leiklist byrjaði mjög snemma en hún vissi aldrei hvað eða hvernig hún ætlaði að stunda hana. „Ég missti svolítið þráðinn þegar ég var í framhaldsskóla og var ekki lengur viss hvað ég vildi gera í lífinu. En ég fann mér mína leið í gegnum söngnám í Danmörku, lýðháskóla og Improv Ísland-námskeið og fleira til að átta mig á að þetta væri nákvæmlega það sem ég vildi gera.“
„Það var markmið mitt að reyna að skapa mér reynslu eða allavega vitund á hvað leiklist væri og hvernig maður gæti unnið að henni áður en ég sótti um því mér fannst það svo stórt að fara í prufur fyrir leikarabrautina. Þá prófaði ég senunámskeið sem voru í boði, tók þátt í verkum hjá Leikfélagi Selfoss, sótti um Improv Ísland–námskeið og fullt annað sem gaf mér öryggi til að prófa og sjá hvort þetta væri eitthvað sem mig langaði í.“
Birta segist ekki eiga neitt draumahlutverk en að hún hafi furðulega mikinn áhuga á manneskjunni og tilveru okkar allra í þessum heimi. Annars eru nokkur spennandi verkefni á döfinni hjá Birtu sem hún hlakkar til að vinna í.