Fimmtudaginn 20. mars klukkan 19:30 verður Margmála ljóðakvöld í Listasafni Árnesinga Hveragerði. Viðburðurinn er samstarf Bókabæjanna austanfjalls og listasafnsins og er haldinn í tilefni af alþjóðadegi ljóðsins sem reyndar er 21. mars.
Á ljóðakvöldinu mun fólk frá ýmsum þjóðlöndum koma og lesa ljóð á sínum tungumálum, ljóð sem þau hafa sjálf valið.
Einnig verða tónlistaratriði og safnið og safnabúðin opin svo tilvalið er að mæta snemma og skoða sýningarnar.
Aðgangur er ókeypis og öll eru hjartanlega velkomin.
Á þeim tíu árum sem Bókabæirnir austanfjalls hafa starfað hafa þeir staðið fyrir ýmsum viðburðum tengdum bókmenntum. Margmála ljóðakvöldið verður fyrsti viðburður Bókabæjanna á þessu ári en ætlunin er að halda annað ljóðakvöld bráðlega þar sem ljóðskáldum verður boðið að koma og lesa upp sín ljóð. Fleiri viðburðir verða með vorinu og þeir verða kynntir síðar.