Fyrir stuttu var haldinn aðalsafnaðarfundur Selfosssóknar þar sem m.a. urðu nokkrar breytingar á nefndarmönnum í sóknarnefnd. Fundurinn fór fram miðvikudaginn 19. febrúar sl. kl. 20.00 í safnaðarheimili Selfosskirkju. Á fundinum fóru fram almenn aðalfundarstörf, en fundarstjóri var Elínborg Gunnarsdóttir og fundarritari Guðrún Tryggvadóttir. Á fundinum lá frammi árskýrsla sóknarnefndar og skýrslur starfsmanna kirkjunnar. Þar var tilgreint allt það góða starf sem fram fer í kirkjunni og einnig reikningar lagðir fram. Eitt stærsta verkefni sóknarnefndar á sl. ári var að láta lagfæra kirkjuna að utanverðu, hún var heilmáluð, þ.e., þak, veggir og gluggar. Þrátt fyrir erfitt sumar í fyrra tókst fyrirtækinu Múr og málun að ljúka því vel. Í skýrslu sóknarprestsins, sr. Guðbjargar Arnardóttur, kemur fram m.a. að á árinu voru haldnar 57 messur þar sem 5859 kirkjugestir mættu. Morgunbænir voru 88, mættir 474, hjónavígslur voru 25, útfarir 62, skírnir 70 og fermingar 121. Fyrir lá að fjórir áttu að ganga úr aðalstjórn og fjórir úr varastjórn samkvæmt lögum. Í aðalstjórn voru endurkjörin Guðrún Tryggvadóttir og þau Eyjólfur Sturlaugsson og Elínborg Gunnarsdóttir, sem komu bæði úr varastjórn, þá kom Hafdís Kristjánsdóttir ný í sóknarnefndina. Í varastjórn var endurkjörinn Örn Grétarsson, Jóhann S. Bjarnason kom úr aðalstjórn, Petra Sigurðardóttir endurkjörin í varastjórn og nýr kemur inn Hróbjartur Eyjólfsson. Þau Fjóla Kristinsdóttir og Guðmundur Björgvin Gylfason gáfu ekki kost á sér. Hefur Fjóla verið í átta ár í sóknarnefnd og Guðmundur Björgvin í fjögur ár. Var þeim þökkuð vel unnin störf í þágu kirkjunnar og nýir boðnir velkomnir. Það er góð tilfinning og jákvætt að finna hvað fólk er tilbúið að taka sæti í sóknarnefnd og starfa fyrir kirkjuna sína. Einnig er gleðilegt fyrir okkur að sjá að yfir 70% íbúa í okkar samfélagi eru í þjóðkirkjunni. Það auðveldar okkur að sjálfsögðu að viðhalda kirkjunni, að utan sem innan. Þá styður það einnig vel við æskulýðsstarf kirkjunnar sem Sjöfn Þórarinsdóttir stjórnar. Þá hafa þær Edit Molnár og Bergþóra Kristínardóttir byggt upp mikinn áhuga fyrir barna og unglingasöng og eru um 80 manns syngja í kirkjunni í dag í þremur kórum. En eitt brýnasta verkefni Selfosssafnaðar í dag er að fá nýtt svæði undir kirkjugarð sem bæjaryfirvöld verða að upplýsa okkur um sem fyrst, en núverandi kirkjugarður er óðum að klárast og dugar í mesta lagi í fimm til sex ár. Að lokum minnist ég á næsta ár, 2026, en það er tímamótár í sögu Selfosskirkju, þá eru 70 ár liðin frá vígslu Selfosskirkju og 80 ár liðin frá stofnun kirkjukórs Selfosskirkju. Þegar hefur verið skipað í afmælisnefnd og einnig er nefnd byrjuð að vinna í söguskráningu og söfnun efnis um kirkjuna og kirkjukór. Með góðri kveðju frá Selfosskirkju.

Ljósmynd: Aðsend.

Ljósmynd: Aðsend.
Björn Ingi Gíslason,
formaður sóknarnefndar Selfosskirkju.