5.6 C
Selfoss

„Það er okkar ósk að fólk viti hvað þetta er gott fyrir sálina“

Vinsælast

Í nóvember 2024 opnuðu Ragnheiður Ólafsdóttir, eða Lalla eins og hún er alltaf kölluð, og Kirsten Jennerich Leirljós Handverk á Selfossi, miðstöð fyrir skapandi iðju og sálræna úrvinnslu. Lalla er með bakgrunn í sálgæslu og Kirsten í handverki. Þær sameina krafta sína til að skapa vettvang þar sem list og lækning mætast. Með áherslu á að veita samfélaginu öruggt og hlýlegt rými fyrir sköpun og sjálfsrækt hefur Leirljós hrundið af stað fjölbreyttri starfsemi sem hefur hlotið góðar viðtökur.

Sköpun sem meðferð

Handverk er löngum þekkt fyrir jákvæð áhrif sín á andlega líðan. Í Leirljósi er boðið upp á ýmiss konar námskeið og skapandi úrræði, allt frá hefðbundinni leirmótun og tálgun til körfuhekls og vatnslitamálunar. Hugmyndafræðin á bak við starfsemina byggir á því að vinna með höndunum geti verið bæði tjáningarform og verkfæri til að vinna úr tilfinningum og streitu.

Í apríl bætist við nýtt úrræði í Leirljós handverk– Clay Field Therapy eða leirhöndlun, sem er meðferðarform þar sem unnið er með leir í leirkassa til að styðja við úrvinnslu tilfinninga. Aðferðin, sem hefur reynst árangursrík fyrir bæði börn og fullorðna, miðar að því að róa taugakerfið og styðja við djúpa sjálfsvinnu. „Fólk byrjar á að leggja hendur á leir og lætur hendurnar vinna eitthvað í honum. Eftir það er hægt að lesa úr leirnum hvað gerðist innra með fólki,“ segir Kirsten. Hún og Lalla eru báðar að ljúka diplómunámi í þessari sérhæfðu meðferð og stefna á að bjóða upp á hana sem hluta af reglulegri dagskrá.

Það er mismunandi eftir aldri hvernig unnið er með leirhöndlunina. „Fullorðnir þurfa að vera með lokuð augun en hjá börnum er það öðruvísi. Það koma upp svo margar tilfinningar þegar þú ert í leirnum. Það er meðferðarúrræði fyrir börn sem heitir „play therapy“ og er miklu árangursríkara en að taka þau í samtalsmeðferð. Þetta er öðruvísi módel af því. Þarna setja þau tilfinningar sínar í leirinn,“ segir Lalla.

Körfuhekl er eitt af námskeiðunum sem er í boði í Leirljós handverk.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Samstarf við Krabbameinsfélag Árnessýslu

Eitt af nýjustu skrefum Leirljóss er samstarf við Krabbameinsfélag Árnessýslu, sem veitir félagsmönnum sínum afslátt af námskeiðum. Fyrir nýgreinda einstaklinga, aðstandendur og þá sem eru í meðferð býðst jafnvel fullur styrkur.

„Við viljum að fólk geti sótt þessa þjónustu í heimabyggð, frekar en að þurfa að keyra til Reykjavíkur,“ segir Lalla og leggur áherslu á mikilvægi þess að veita stuðning í nærumhverfi fólks. Hún segir þetta samstarf mikilvægt skref í að tryggja að sem flestir geti nýtt sér lækningamátt handverksins án þess að þurfa að leggja á sig langan veg eða mikinn kostnað.

Lalla segir að í Reykjavík sé Ljósið, úrræði fyrir fólk með krabbamein, mjög vinsælt og að þangað fari um 600 manns í hverjum mánuði. Samt vantar fleiri pláss. Því hafi þær Kirsten séð markað fyrir þessu á Selfossi.

„Ég starfaði einu sinni sem sjúkrahúsprestur í Bandaríkjunum og þar starfaði ég í sálgæslu. Ég kom heim 2023 og var þá forstöðukona á sambýli í eitt og hálft ár þar sem ég kynntist Kirsten. Það var alltaf löngun mín að fara af stað með svona miðstöð. Ég fann það að fólk vantaði eitthvað í veikindum sínum almennt. Það eru svo margir sem fara inn á spítala sem eru einmana og óttaslegnir að fara heim og eiga engin félagsleg tengsl. Þá er svo gott að vita að eitthvað tekur við,“ segir Lalla en leggur áherslu á að þetta sé ekki bara hugsað fyrir fólk sem er veikt.

„Margir verða líka bara veikir af því að vera einmana eða veikir af því að eiga engan að. Það er það sem við erum að reyna að gera hér. Við erum að vekja fólk til umhugsunar á því hvað er mikilvægt að sækja stuðning, vera í kringum annað fólk og gera eitthvað sem er gaman. Mjög margir eru hræddir við að fara út í handverk af því þeir halda að þeir þurfi að vera góðir í því og sjá ekki næringarhlutann í því sem er svo stór. Það er alls ekki rétta leiðin að hugsa bara um lokaútkomuna, heldur að hugsa:Ég er að gera þetta, vá hvað er gaman.“

Það er hægt að föndra ýmislegt í Leirljós handverk.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Handverk fyrir andlega vellíðan

Fólk getur komið í Leirljós handverk á venjuleg námskeið en það getur líka komið fyrir sálina. Handverkið snýst ekki aðeins um að búa til fallega hluti heldur einnig að skapa rými fyrir samveru og sálræna úrvinnslu. Þeir sem glíma við ADHD, einhverfu eða vanvirkni hafa fundið ró og fókus í gegnum handverkið.

„Það er svo skrítið þegar fólk fer að vinna í handverki þá fær sálin svo mikla ró og fókus og kvíði og áhyggjur og allt svoleiðis víkur í burtu á meðan þú ert í handverkinu. Þess vegna er þetta svona blanda af iðjuþjálfun og sálrænni úrvinnslu. Við veitum fólki sem kemur inn á svoleiðis námskeið stuðning. Þegar eitthvað er að koma upp þá spjöllum við við þau. Það eru að koma upp alls konar persónuleg vandamál og við hjálpum fólki að tala um það. Við erum til staðar. Sálgæslan snýst mjög mikið um hlustun og að leyfa hlutunum að koma upp á yfirborðið,“ tekur Lalla fram.

Leirljós hefur þannig orðið að mikilvægum vettvangi fyrir bæði einstaklinga sem leita að skapandi útrás og þá sem vilja vinna markvisst með andlega heilsu sína. Fjölbreytt námskeið og viðburðir stuðla að samfélagslegri tengingu, þar sem fólk kemur saman, lærir nýja færni og nýtur sköpunargleðinnar í öruggu umhverfi.

Mæta þörfum einstaklinga

Það er mismunandi hversu stórir hópar sækja hvert námskeið fyrir sig. Það er engin heilög tala og er reynt að mæta fólki þar sem því líður best. Í leirmótun geta verið alveg fimm til tíu saman en þá jafnvel á mismunandi borðum og öllum sinnt sérstaklega. Svo fer það eftir því hvernig hóparnir koma saman.

„Sumir einstaklingar eru opnir við að vera með öðrum en aðrir koma kannski bara tveir saman eða í einstaklingstíma. Við höfum verið að gera þetta bara eftir þörfum einstaklinga og mætum fólki þar sem það er, bæði með börn, unglinga og fullorðna,“ segir Lalla.

Hún segir leyndardóm á bakvið það hvað handverk gerir fyrir fólk og segir það sameinandi.

„Þegar við erum með venjuleg opin námskeið sækir fólk í þau. Það er svo sjaldan sem það fær tækifæri til að vera í þrjár klukkustundir með fólki sem það þekkir ekki. Þetta eru svona gæðastundir. Okkar ósk er að fólk læri eitthvað hér sem það getur svo farið með heim og haldið áfram að gera svo sálinni vegni vel,“ nefnir Lalla.

Fá reynslumikið fólk með sér

Lalla og Kirsten eru ekki einu kennararnir á námskeiðunum í Leirljósi. Þær fá oft til sín gestakennara sem kenna ýmislegt og leggja áherslu á að fá fólk úr heimabyggð.

„Við erum til dæmis í samstarfi við 87 ára gamlan mann sem kennir tálgun hjá okkur. Hann er frá Flúðum og heitir Guðmundur Magnússon. Hann hefur örugglega mestu reynslu á Íslandi í þessu. Hann gaf út, ásamt Ólafi Oddssyni, bækling sem heitir Lesið í skóginn – Tálgað í tré. Það er rosaleg lækning að vera í tálginu. Hún er mjög auðveld þegar maður er búinn að læra hana,“ segir Lalla.

Hún nefnir líka að þær hafi verið með mörg námskeið í körfuhekli, keramikmálun og vatnslitamálun ásamt því að fá frábæran leiðbeinanda úr Myndlistarskólanum, Viktor Breka. Lalla segir alltaf seljast upp samdægurs á námskeiðin hans í Reykjavík. Hann verður áfram með þeim. Einnig getur fólk óskað eftir öðrum námskeiðum ef áhugi er fyrir því og þá er fenginn leiðbeinandi sem er hæfur á því sviði.

Tálgun hefur verið mjög vinsæl.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Áframhaldandi vöxtur og framtíðarsýn

Lalla segir viðtökur starfseminnar hafa verið frábærar og nú sé markmiðið að finna stærra húsnæði þar sem hægt verði að halda úti enn fjölbreyttari starfsemi. Aukið rými myndi gera kleift að bæta við fleiri námskeiðum, fjölga meðferðarúrræðum og skapa betri aðstöðu fyrir þátttakendur.

„Handverkið er leið til að sameina okkur, fá útrás fyrir tilfinningar okkar og róa taugakerfið. Það eru allir á yfirsnúningi í taugakerfinu í dag. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað við erum fyrir miklu áreiti. Stress drepur. Um leið og fólk róar taugakerfið sitt þá slakar á öllu og allt virkar betur. Það fer að sofa betur, finnur meiri tilgang í lífinu, nær meiri fókus og lærir að sortera lífið sitt. Það er okkar ósk að fólk viti hvað þetta er gott fyrir sálina,“ segir Lalla að lokum.

Ef áhugi er á námskeiðum má hafa samband við Leirljós Handverk í gegnum Facebook eða á leirljoshandverk@gmail.com.

Nýjar fréttir