Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í gær alls staðar á landinu. Blíðskaparveður var á Selfossi og því góðar aðstæður til að fara út og syngja fyrir nammi.
Mikill fjöldi krakka lagði leið sína til okkar hjá Dagskránni og sungu þeir eða sögðu brandara fyrir sælgæti. Algengustu lögin voru Gamli Nói, Litalagið og Alúetta en mörg önnur frumleg atriði komu inn á milli. Sumir krakkar lögðu mikinn metnað í atriðin sín og dönsuðu með söngnum.
Búningarnir voru fjölbreyttir og margir frumlegir. Það fór þó ekki á milli mála að VÆB-bræður hafi verið þeir vinsælustu þetta árið og voru mörg annað hvort klædd sem þeir eða sungu lagið þeirra RÓA.
Allir krakkar sem komu við hjá okkur í búning og sungu fengu mynd af sér.