Líkt og flestir vita sigruðu VÆB-bræður Söngvakeppnina 2025 með lagið RÓA og fara út til Basel í Sviss fyrir Íslands hönd í maí. Þeir fara þó ekki einir og verða fleiri með þeim á sviðinu. Í atriðinu eru þrír dansarar og er Hvergerðingurinn Baldvin Alan Thorarensen einn af þeim. Hann hafði í nægu að snúast í kringum Söngvakeppnina þar sem hann var einn af danshöfundum keppninnar og tók þátt í nokkrum atriðum.
Ógleymanleg tilfinning
Aðspurður að því hvernig tilfinningin væri að vita að hann væri að fara í Eurovision segir Baldvin hana ógleymanlega. „Það tók smá tíma að fatta að þetta væri í alvörunni að gerast. Að keppa í Eurovision hefur verið draumurinn minn frá því að ég man eftir mér þannig að gleðin var ólýsanleg.
Baldvin segist hafa ákveðið að fara inn í þetta verkefni með fjörið að leiðarljósi og með engar væntingar um hvaða atriði gæti unnið. „En stuttu áður en úrslitin voru tilkynnt sagði einn kynnanna lukkutöluna mína upphátt í útsendingunni. Það gaf mér rosa góða tilfinningu um að eitthvað frábært væri að fara að gerast, og það frábæra gerðist svo sannarlega,“ segir Baldvin stoltur.
Hann segir spennufallið ekki farið og það sé frekar rétt að byrja. „En ég er hægt og rólega að komast aftur á jörðina. Smá tími með fjölskyldunni, fjöruferð og heimsókn til ömmu og afa á síðustu dögum hafa hjálpað með það.“

Ljósmynd: Instagram/ballivelour.
Skemmti sér konunglega með VÆB
Baldvin vann með VÆB-bræðrum í Söngvakeppninni 2024 þegar þeir sungu lagið Bíómynd og segist hafa skemmt sér konunglega með þeim og hafi þess vegna ekki verið lengi að stökkva á tækifærið að dansa með þeim aftur í ár þegar hann frétti að þeir væru að keppa aftur.
Hann var þó ekki bara í atriðinu þeirra. Hann var einn af danshöfundum keppninnar og kom eitthvað að öllum atriðunum. „Þannig ég á einhvern hlut í nánast öllu. En dansaralega séð dansaði ég í þremur keppnisatriðum, í lögunum RÓA, Eldur, og Ég flýg í storminn. Ég var einnig skuggadansarinn í grafíkinni hjá Þrá. Fyrir utan það samdi ég líka og dansaði í skemmtiatriðinum hjá Heru og Käärijä á lokakvöldinu,“ segir Baldvin.
Það er mikil vinna á bakvið svona verkefni og segist Baldvin vera fullur af þakklæti fyrir það að allir sem komu að keppninni í ár séu meistarar í sínum verkum. „Það er heiður í orðsins fyllstu merkingu að fá að vinna með svona fagfólki. Með samvinnuna að vopni erum við óstöðvandi.“

Ljósmynd: Instagram/ballivelour.
Törnin hefur endurnært Baldvin sem listamann
Baldvin segist vera þreyttur eftir törnina undanfarna mánuði og að hún hafi verið mjög krefjandi og tekið á bæði líkamlega og andlega. „En þessi törn hefur líka endurnært mig sem listamann og veitt mér ómetanlegan innblástur. Þannig þrátt fyrir allt blóð, svita og tár sem hefur farið í þetta myndi ég glaðlega gera þetta aftur.“
„Þetta var svo ótrúlega skemmtilegt. Það er að sjálfsögðu geggjað gaman að fara á sviðið og „performa“. En það sem gerði þessa upplifun magnaða og töfrandi er allt dásamlega fólkið sem maður fékk að kynnast og vinna með. Minningarnar með þeim eru það sem ég tek með mér frá þessu,“ segir Baldvin.
Bjartsýnn fyrir Eurovision
Það er margt spennandi sem tekur við núna hjá Baldvini.
„Ég vinn líka sem danskennari þannig að ég fæ núna smá tíma til að einbeita mér að því og öðrum framandi verkefnum þar til að æfingar hefjast aftur fyrir Basel. En við munum að sjálfsögðu nota tímann fram að keppni til að skoða atriðið og gera það sem allra flottast fyrir stóra sviðið úti. Það er ekki til skemmtilegri undirbúningsvinna en þessi þannig að ég hlakka mikið til þess að hefjast handa á ný við þetta,“ segir Baldvin spenntur.
Hann segist vera bjartsýnn fyrir keppninni og segir VÆB vera með einstakan sjarma.
„Ég held að Evrópa muni taka vel á móti þeim. Atriðið, líkt teyminu, er mjög skemmtilegt og orkuríkt þannig að ef það flýgur ekki í Eurovision þá veit ég ekki hvað. Við getum ekki beðið eftir því að komast til Sviss og stefnum á það að deila fjörinu okkar með öllum heiminum.“