Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í Kaplakrika laugardaginn 1. mars síðastliðinn. Lið HSK/Selfoss gerði góða ferð á mótið og uppskar fimm einstaklingsverðlaun. Þrenn silfurverðlaun komu í hús og voru það Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, fyrir þrístökk með stökk upp á 12, 68 m, Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, einnig fyrir þrístökk þegar hún stökk 11,45 m og Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Selfoss, í 1500m hlaupi þegar hann hljóp á 4:07,15 mín sem er persónulegt met og HSK met í flokki 35-39 ára. Tvö bronsverðlaun unnust og voru það Örn Davíðsson, Umf. Selfoss, sem kastaði kúlunni 14,90m og Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþrf. Garpi, sem stökk 5,30m í langstökki.

Ljósmynd: FRÍ.
Ívar Ylur Birkisson, Íþrf. Dímon, bætti þrjú HSK-met í 60 m grindahlaupi á karlagrindina þegar hann hljóp á 8,67 sek. Var það í flokkum 16-17, 18-19 og 20-22 ára. Boðhlaupssveit kvenna sló hálfsmánaðargamalt HSK-met í 4x200m boðhlaupi í 16-17 ára og 18-19 ára stúlknaflokki þegar þær hlupu á tímanum 1:50,82 mín. Sveitina skipuðu Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþrf. Garpi, Arndís Eva Vigfúsdóttir Umf. Selfoss og Hugrún Birna Hjaltadóttir Umf. Selfoss.

Ljósmynd: FRÍ.
HSK/Selfoss endaði í 4. sæti heildarstigakeppninnar af 9 liðum sem er frábær árangur. Karlaliðið lenti í 5. sætinu í stigakeppni karla og kvennaliðið var í 3. sæti í stigakeppni kvenna.
Sama dag fór fram bikarkeppni 15 ára og yngri. HSK/Selfoss eignaðist þar tvöfaldan bikarmeistara en Anna Metta Óskarsdóttir Umf. Selfoss sigraði bæði í langstökki þegar hún stökk 5,06m og hástökki þar sem hún stökk 1,55m. Stór keppnisdagur hjá Önnu Mettu, enda gjaldgengur keppandi í báðum bikarkeppnunum. Lið HSK/Selfoss endaði í 5. sæti af níu liðum í keppninni.
Héraðsmót HSK fer fram 15. mars í Selfosshöllinni og er fólk hvatt til þess að kíkja á mótið. Sama dag fara Héraðsleikar HSK fram en þeir eru fyrir keppendur 10 ára og yngri.