Ég get ekki annað en hripað niður nokkur orð um leiksýningu sem ég fór á hjá leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja. Þó ekki væri nema til að senda þakkir til hópsins alls fyrir frábæra sýningu í alla staði og brýna fyrir öllum þeim sem þetta lesa að drífa sig á sýninguna í Árnesi.
Það er svo sannarlega ekki gefið að í fámennu samfélagi sé þéttur hópur af fólki sem er tilbúinn annað hvert ár að leggja á sig þá vinnu sem felst í að setja upp leiksýningu með öllu sem henni tilheyrir. Fyrir það ber svo sannarlega að þakka og ég tala nú ekki um þegar sýningin er svona vel heppnuð.
Sex í sveit – leikdeild Ungmennafélags Gnúpvera
Frumsýning leikritsins Sex í sveit hjá leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja var föstudagskvöldið 28. febrúar. Það er skemmst frá því að segja að frá fyrstu mínútu leikritsins og allt til enda skellihló salurinn allur. Svo mikið var hlegið á stundum að leikararnir þurftu að taka sér óvænta kúnstpásu og bíða eftir að geta haldið áfram með textann sinn.
Leikritið Sex í sveit er eftir Marc Camoletti en íslenska heimfærslu og þýðingu gerði Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjóri á þessari sýningu hjá leikdeild UMFG er Björk Jakobsdóttir. Leikritið hafa þau heimfært og uppfært á skemmtilegan og óvæntan hátt.
Leikhópurinn
Leikhópurinn allur skilar sínu hlutverki frábærlega og sá óhemjutexti sem þau fara með skilar sér nær alltaf óaðfinnanlega. Það yljar verulega að sjá að unga kynslóðin er tilbúin að taka þátt í svona leiksýningu, hvort heldur er á sviði eða við tæknilega vinnu og jafnframt er afar ljúft að verða vitni að því að margir eru tilbúnir að taka að sér vinnuna „sem enginn sér“. Þegar þið komið á sýninguna kaupið þið leikskrána og þá sjáið þið hvað ég er að meina.
Ekki flókið
Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn en langar að taka fram að undanbrögð, undanfærslur og smávegis og jafnvel stundum dálítið stór tilfærsla á sannleika verður einmitt til þess að úr verður mjög svo skemmtilegur farsi.
Björk Jakobsdóttir leikstjóri hefur greinilega náð afar vel til leikaranna og náð að kalla fram getu og framlag hvers og eins á þeirra forsendum.
Það er einhvern veginn allt fallegt og skemmtilegt við þessa sýningu og ég trúi ekki öðru en að fólk muni flykkjast á hana. Það er nefnilega svo gott og gaman að hlæja með öðrum og njóta þess að upplifa leik á sviði. Leik fólks sem legguróhemjuvinnuu á sig til að skemmta öðrum.
Ekki flókið! Þið eruð að fara á leiksýninguna Sex í sveit í Árnesi.
Anna Kr. Ásmundsdóttir,
Mástungu.