Senn líður að því að einni árstíð lýkur og önnur gengur í garð. Veturinn kveður, og lóan kemur senn. Þannig erum við minnt á að breytingar séu sjálfsagður hluti lífsins, kannski eru ekki margir minntir oftar á einmitt það en við sem kjósum að búa hér á Íslandi.
Það er svo enn eitt merkið um breytingar að nú nýlega lagði nýr og stærri þingflokkur Viðreisnar land undir fót og sótti kjósendur heim. Það er einlægt markmið Viðreisnar að vera afl sem hlustar og setur sig í spor kjósenda. Ekki bara þeirra sem hafa treyst Viðreisn til áhrifa, heldur allra landsmanna.
—
Suðurkjördæmi er víðfeðmt, fjölmennt og ekki síst fjölbreytt kjördæmi. Þar býr fólk sem sækir sína vinnu til höfuðborgarsvæðisins, öll flóra frumframleiðslu matvæla ásamt áframvinnslu hennar. Í Suðurkjördæmi má finna öflug iðnfyrirtæki og sum af öflugustu fiskveiða- og fiskvinnslufyrirtækjum landsins. Suðurkjördæmi er einnig kjölfesta í ferðaþjónustu. Það er fyrsta kjördæmið sem meginþorri ferðamanna sér fyrst, og það síðasta sem þeir sjá áður en þeir halda aftur heim. Þá eru fjölmargir af vinsælustu áfangastöðum ferðamanna á Suðurlandi.
Það segir sig sjálft, að til þess að kynnast Suðurkjördæmi öllu þarf marga, marga daga. En það má samt reyna. Á Suðurlandi fékk Viðreisn að kynnast sjónarmiðum bæjarstjórnar í Hveragerði, þar sem mikil innviðauppbygging hefur átt sér stað og enn meiri framundan. Þá var tekið hús á spennandi fyrirtækjum í matvælaframleiðslu og bjórgerð, þar sem við fengum að kynnast því umhverfi, og ekki síst þeim áskorunum sem nýsköpunarfyrirtæki mega glíma við á leið sinni til stöndugri rekstrar.
Þá fékk Viðreisn að kynnast fangelsinu að Litla-Hrauni. Það starf sem þar er unnið fæst seint fullþakkað. Það er engin ofsaga að þar eru mannvirki fyrir löngu orðin óburðug til að sinna því starfi sem til er ætlast. Ekki síst er aðstaða þeirra sem þar starfa löngu orðin óboðleg. Til stendur að reisa starfseminni nýja og betri aðstöðu og er það á meðal markmiða Viðreisnar að svo megi verða sem fyrst.
Viðreisn fékk einnig tækifæri til að kynnast starfsemi Fjölheima á Selfossi. Þar er unnið merkilegt starf í tengslum við háskólasamfélagið víða um land, endurmenntun auk margháttaðrar þekkingarstarfsemi.
——
Það skemmtilegast af öllu er samt að fá tækifæri til að hitta kjósendur í augnhæð og fá milliliðalaust að vita hvað þeim liggur á hjarta. Það fengum við í þingflokki Viðreisnar að gera þann 27. febrúar – þegar fjölmennt var á fund okkar í Tryggvaskála á Selfossi. Fjölbreytni samfélagsins skein þar skært. Við fengum að kynnast mörgum sjónarhornum. Vissulega eru skiptar skoðanir á því hvernig við sjáum framtíðinni best fyrir komið. Þannig á það líka að vera í upplýstu og frjálsu samfélagi. Samtal og samræða er lykillinn að bestu mögulegu leiðinni og það er virkilega fagnaðarefni að fá að iðka lýðræðið.
Takk fyrir okkur Suðurland, þangað til næst.
F.h. þingflokks Viðreisnar,
Guðbrandur Einarsson,
þingmaður Suðurkjördæmis.