Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið kjörin nýr formaður Sjálfstæðisflokksins. Kjörið fór fram á 45. landsfundi flokksins í Laugardalshöll í dag. Hún vann formannskjörið gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og verður því tíundi formaður Sjálfstæðisflokksins.
Um sögulega stund er að ræða þar sem hún er fyrsta konan í tæplega hundrað ára sögu Sjálfstæðisflokksins til að vera kjörin í embætti formanns. Hún tekur við af Bjarna Benediktssyni, sem hefur gegnt embættinu frá 2009.
Munaði nítján atkvæðum
Guðrún hlaut 50,11 prósent atkvæða. Alls greiddu 1862 atkvæði, þar af voru fjögur ógild atkvæði. Áslaug Arna fékk 912 atkvæði gegn 931 atkvæðum Guðrúnar.
„Kæru vinir, kæru Sjálfstæðismenn. Takk, takk, takk, takk fyrir það traust sem þið eruð að sýna mér hér í dag. Takk fyrir að sýna mér hér um helgina að Sjálfstæðisflokkurinn er lang lang öflugasta fjöldahreyfing landsins,“ sagði Guðrún í þakkarræðu sinni eftir að úrslitin voru kynnt.
„Saman ætlum við að gera hann stærri, sterkari og samheldnari en nokkurn tímann fyrr. Kæru vinir, ég fór ekki í pólitík útaf pólitískum metnaði. Ég fór eingöngu í pólitík af hugsjón. Ég brenn fyrir þjóð mína og landið mitt og þess vegna er þetta ekki sigur einstaklingsins. Þetta er sigur okkar allra.“
Hún þakkaði Áslaugu Örnu fyrir drengilega kosningabaráttu. „Það er ómetanlegt að eiga sterkan og einbeittan bandamann í pólitík. Og það á ég í Áslaugu Örnu og það munum við eiga saman.“
Guðrún tók fyrst þingsæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2021. Hún gegndi embætti dómsmálaráðherra 2023-2024.