6.7 C
Selfoss

Heldur fiskasýningu fyrir samnemendur á hverju ári

Vinsælast

Aron Helgi Eiríksson er nemandi í 8. bekk í Grunnskólanum í Hveragerði sem hefur gríðarlega mikinn áhuga á mismunandi fisktegundum. Hann hefur haldið metnaðarfullar fiskasýningar fyrir nemendur grunnskóla og leikskóla frá því hann var lítill.

Tveggja ára á fyrstu sýningunni

Fyrsta sýningin sem Aron tók þátt í var árið 2013 á leikskólanum Undralandi, þegar hann var aðeins tveggja ára. Pabbi hans hélt þá sýninguna, en hann er sjómaður. „Eftir það spratt mikill áhugi hjá Aroni um að halda fleiri fiskasýningar en áhuginn á fiskum hefur alltaf verið til staðar þar sem bæði pabbi hans, Eiríkur Gíslason, vinnur við fisk og afi hans heitinn, Gísli Eiríksson, gerði það líka. Þannig að hann hefur lært frekar mikið af fróðleik um fiska og önnur sjávardýr hjá þeim,“ segir Arnheiður Aldís Sigurðardóttir, móðir Arons, í samtali við Dfs.is.

Aron var mjög ungur þegar hann fékk áhuga á fiskum.
Ljósmynd: Aðsend.

Aron hélt fiskasýningar með pabba sínum á hverju ári, og stundum tvisvar á ári, eftir þessa fyrstu sem var 2013. Þeir hafa farið með sýningarnar á fleiri leikskóla eins og Óskaland í Hveragerði og Bergheima í Þorlákshöfn. Aron byrjaði svo að sjá um sýningarnar sjálfur í skólanum sínum, Grunnskólanum í Hveragerði, fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan en pabbi hans hefur áfram veitt og útvegað fjölbreyttar tegundir af fiskum.

Ein af fyrstu sýningum Arons fyrir samnemendur sína. Ljósmynd: Aðsend.

Stefnir á að veiða fiskana sjálfur

Aron hefur sýnt og sagt frá fjölda tegunda af fiskum, sem velta aðallega á hvað veiðist hjá pabba hans. Dæmi um tegundir eru algengar fisktegundir eins og þorskur, ýsa, karfi, ufsi, skata og steinbítur. En hann hefur líka sýnt alls konar háfa – bláháf, brúnháf, rauðháf, gráháf og svartháf. Hann sýnir líka sjaldgæfar tegundir eins og rottufisk (geirnyt), trjónufisk (geirnef), sædjöful, surta, búra og margt fleira. Hann er líka með margar krabbategundir. Má þar nefna Grænlandskrabba, trónukrabba, nornakrabba, töskukrabba, kuðungkrabba og humar.

Fjöldi fisktegunda eru í sýningu Aron ár hvert.
Ljósmynd: Grunnskólinn í Hveragerði.

Nemendur Grunnskólans í Hveragerði eru alltaf spenntir fyrir sýningunni hans Arons og er hún það vinsæl að krakkar sem fluttir eru úr bæjarfélaginu gera sér sér ferð í skólann til að sjá sýninguna. Kennarar skólans segja Aron hafa mikla þekkingu um fiskana og að áhuginn skíni í gegn hjá honum. Hann stefnir nú á að veiða fiskana sjálfur fyrir næstu sýningu.

Aron stefnir að því að veiða fiskana sjálfur fyrir næstu sýningu.
Ljósmynd: Grunnskólinn í Hveragerði.
Nemendur Grunnskólans í Hveragerði sýna fiskunum alltaf mikinn áhuga.
Ljósmynd: Grunnskólinn í Hveragerði.

Nýjar fréttir