6.7 C
Selfoss

Skutlaði puttaferðalangi í Eden

Vinsælast

Á sunnudagskvöldum á nýbyrjuðu ári hefur Leikhópurinn Vesturport fært sjónvarpsáhorfendum fjóra þætti um Vigdísi Finnbogadóttur. Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra þessari athyglisverðu og vönduðu þáttaröð.

Við gleymum stundum að Vigdís Finnbogadóttir er fyrst kvenna í heiminum til að verða kosin forseti í lýðræðislegum kosningum og er löngu tímabært að segja sögu þessarar merku konu. Elín Hall leikur Vigdísi unga snilldarlega og Nína Dögg Filipusdóttir leikur Vigdísi þegar hún er fullorðin. Nína Dögg hefur margoft sýnt hve öflug leikkona hún er og hér er hún einfaldlega frábær.

Forsetakjör 1980 fór fram þann 29. júní. Fjögur voru í framboði, þau Albert Guðmundsson alþingismaður, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Pétur J. Thorsteinsson sendiherra og Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri. Vigdís var fyrsta konan sem gaf kost á sér til embættis forseta Íslands og var jafnframt fyrsta konan í heiminum sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum.

Albert fékk 19,8%, Guðlaugur 32,3%, Pétur J. 14,1 % og Vigdís 33,8%. Kjörsókn var 90,5% og heildarfjöldi atkvæða 129.595. Aðeins munaði 1911 atkvæðum á Vigdísi og Guðlaugi.

Sólríkan sunnudag í júní var haldinn í Selfossbíói framboðsfundur stuðningsmanna Vigdísar Finnbogadóttur. Sviðið var blómum skrýtt og gamla bíóið fullt út úr dyrum. Hjalti Gestsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, var fundarstjóri á fundinum og hafði beðið mig um að aðstoða við fundarstjórnina. Vigdís flutti ræðu og stuðningsmenn fluttu ávörp. Ég man að Stefán Jasonarson frá Vorsabæ var fyrstur á mælendaskrá og flutti kraftmikla og skemmtilega ræðu. Umræður voru fjörugar og skemmtilegar. Eftir fundinn buðu þau sæmdarhjón Karen og Hjalti, nokkrum úr framkvæmdanefndinni og Finnboga Guðmundssyni kosningastjóra, til kaffisamsætis.

Ég var hissa hvað Vigdís var orkumikil því hún var búin að ferðast víða dagana á undan. Þorfinnur Snorrason, frá Fossi, flaug með Vigdísi til Stykkishólms og þaðan var flogið austur til Egilsstaða. Svo voru firðirnir þræddir og endað á Höfn í Hornafirði. Eftir fundinn á Höfn var flogið á Selfossflugvöll og lent um tvöleytið um nóttina. Heppilegt hvað veðrið var gott. Það var eins og sólin elti Vigdísi hvar sem hún fór!

Talningin að loknum kosningum var spennandi allt til loka, mjög litlu munaði á Vigdísi og Guðlaugi. Þegar lokatölur úr Austurlandskjördæmi komu loks um 05.30 um morguninn var ljóst að Vigdís hafði verið kosin fjórði forseti íslenska lýðveldisins. Á kosningaskrifstofunni í Þóristúninu (hjá Steinunni Hafstað) töfraði Magga Frímanns fram rjómatertu, skreytta með íslenska fánanum og árituninni „Vigdís Finnbogadóttir forseti“.

Ég áttaði mig ekki á því þá hve kjör Vigdísar var merkilegur atburður. Þó Vigdís hafi fengið rúmlega þriðjung atkvæða varð hún strax forseti allra landsmanna. Sem forseti var Vigdís alla tíð dugleg að fara um landið og tók strax upp þann sið að gróðursetja þrjár trjáplöntur (eina fyrir stelpur, eina fyrir stráka og eina fyrir óbornar kynslóðir) og hafði sem aðstoðarmenn ungu kynslóðina. Á 100 ára brúarafmælinu 1991 plantaði Vigdís ásamt aðstoðarfólki 3 plöntum við norðurenda Ölfusárbrúar.

Ég fór að keyra rútur 1983, oftast með erlenda ferðamenn. Einn af þeim stöðum sem voru sóttir heim var Bessastaðir þar sem kirkjan var skoðuð. Þegar ferðamönnunum var sagt að Bessastaðir væru forsetasetur vildu þeir ekki trúa því, sérstaklega þeir sem komu frá Bandaríkjunum. Þeir spurðu yfirleitt: „Hvar eru lífverðirnir?“

Bragi í Eden var öflugur stuðningsmaður Vigdísar. Í Eden var stór mynd af Vigdísi í ljósbláa kjólnum. Nokkrum árum eftir kjör Vigdísar kom franskur ferðamaður (puttalingur) í Eden og sá myndina af forsetanum. Hann spurði afgreiðslufólkið hvaða kona þetta væri? Þegar honum var sagt að þetta væri Vigdís forseti fékk hann vægt áfall. Þetta var nefnilega konan sem tók hann upp í bíl sinn við Rauðavatn, skutlaði honum alla leið í Eden, spjallaði við hann á frönsku (hann var undrandi á því hvað Íslendingar töluðu góða frönsku!) og sagði honum allt sem hann vildi vita um þjóðina og söguna.

Sem forseti þurfti Vigdís að takast á við mörg erfið verkefni, sennilega það erfiðasta þegar þjóðin var harmi slegin eftir snjóflóðin á Súðavík og Flateyri. Sóley Eiríksdóttir sem lifði af snjóflóðið á Flateyri segir í bók sinni Nóttin sem öllu breytti: „Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, gerði sér far um að vera viðstödd flestar minningarstundir og útfarir þeirra sem fórust á Flateyri. Hlýja hennar og samúð veitti aðstandendum mikinn styrk.“

Kristinn M. Bárðarson.

Nýjar fréttir