Atli Örn Egilsson hefur verið ráðinn þjónustustjóri VÍS á Suðurlandi. Atli hefur mikla reynslu af þjónustu við bæði einstaklinga og fyrirtæki en hann kemur frá Advania þar sem hann starfaði sem verkefna- og vörustjóri en þar áður starfaði hann hjá Íslandsbanka sem ráðgjafi á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði.
Atli er giftur Emilíu Björt Gísladóttur og eiga þau 3 börn. Hrafnhildi, 6 ára, Úlf, 5 ára og Egil sem er 1 árs. Foreldrar hans eru Svava Jónsdóttir og Egill Rafn Sigurgeirsson en þau hafa einmitt bæði unnið á Selfossi í gegnum tíðina. ,,Ég á einnig góðar minningar af Suðurlandi enda fór ég oft í sveit á Ósabakka á Skeiðum þegar ég var yngri að hjálpa til við heyskap eða í réttum.”
Atli er fæddur og uppalinn á litlum sveitarbæ í Svíþjóð en bjó lengst af á Vatnsenda í Kópavogi. Árið 2021 flytur hann til Hveragerðis þar sem þau hjónin hafa verið að gera upp eldra timburhús. „Okkur líður mjög vel í Hveragerði. Ég er mikill fjölskyldumaður og elska að verja tíma með fjölskyldunni, hvort svo sem það er heima eða úti í náttúrunni. Útivera og ferðalög skipta mig miklu máli – fátt jafnast á við góðan göngutúr í Reykjadal eða að kanna aðra fallega staði á Suðurlandi. Ég hef líka gaman af því að elda, sérstaklega þegar hægt er að grilla úti á sumrin. Svo hef ég gaman af veiðum og golfi en ég reyni að stunda íþróttir reglulega, bæði til að halda mér í formi en líka til að njóta útiverunnar.“

Ljósmynd: Aðsend.
Nýtt starf á nýjum stað
„Ég er mjög spenntur fyrir starfinu! VÍS er leiðandi tryggingafélag sem leggur mikla áherslu á framúrskarandi þjónustu, öryggi viðskiptavina og stafræna þróun. Það er frábært að vera hluti af sterku teymi hér á Suðurlandi. Ég hef unnið mikið með stafrænar lausnir og þjónustu og það sem vakti áhuga minn á þessu starfi var þessi aukna áhersla á enn betri þjónustu við landsbyggðina. Sömuleiðis fannst mér aðlaðandi að geta veitt persónulega þjónustu á Suðurlandinu.
Tryggingar snerta alla þætti lífsins, og þess vegna er gaman að vera í hlutverki þar sem ég get hjálpað fólki að finna bestu lausnirnar fyrir sig og ná að kynnast fólki á Suðurlandi betur. Að fá að starfa á Selfossi leggst mjög vel í mig. Það er skemmtilegt að vinna í umhverfi þar sem samfélagið er nátengt, fólk þekkir hvert annað og er vinalegt. Hérna er afslappaðra andrúmsloft en í borginni.
Teymið á Selfossi er frábært. Þau eru alltaf tilbúin að hjálpa og leggja sig fram um að veita toppþjónustu. Það er gaman að koma inn í svona gott starfsumhverfi. Nú erum við að fara í annað húsnæði og nýja skrifstofan, við Eyraveg 37, verður frábær, nútímaleg og hentar mjög vel fyrir góða þjónustu fyrir viðskiptavini. Það er ánægjulegt að vera í nýrri og aðlaðandi vinnuaðstöðu með enn betra aðgengi,“ segir Atli að lokum.