Ingvi Rafn Óskarsson er matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á því að þakka Steinari vini mínum á Borg fyrir þessa skemmtilegu áskorun. Eins og sást í síðustu viku þá er Steinar mikill matgæðingur og sérstaklega klár í ítalskri matargerð.
Ég ætla að geyma það að sýna uppskrift beint frá býli heldur ætla ég ætla deila með ykkur uppskrift að heimagerðum rétt sem ég kýs að kalla „grullur“, en hann varð til þegar það átti að vera pulsur í matinn en síðan áttaði ég mig á því að við áttum bara pulsubrauð en engar pulsur. Þá voru góð ráð dýr, hins vegar átti ég pakka af rifnu svínakjöti í ísskápnum. Á stóru heimili í sveitinni er mikilvægt að nýta það sem til er og hér kemur því uppskriftin að „grullunum“.
Tilbúið rifið bbq grísakjöt
Pulsubrauð
Salatblanda
Rauðlaukur
Gúrka
Hvítlaukssósa
BBQ-sósa
Smá siracha sósa
Aðferð: Grísakjötið er hitað á pönnu með dassi af bbq sósu. Það má líka hita það í örbylgjuofni ef krakkarnir eru mjög svangir og geta ekki beðið. Svo þarf að skera grænmetið. Að lokum raðar maður öllu saman í heit eða köld pulsubrauð. Gott er að setja salatið neðst svo það haldist, næst kjötinu og toppa það svo með hvítlaukssósu og smá siracha. Mjög einfaldur og góður skyndibiti í sveitinni. Fleiri uppskriftir má sjá á youtube-rásinni minni.
Ég skora á frænda minn og nýjan þjálfara Stokkseyrar í knattspyrnu, Kristján Frey Óðinsson, til þess að sýna okkur eina af hans bestu leyniuppskriftum. Hann hefur ferðast um allt land á undanförnum árum og aflað sér þekkingar um ólíka matarmenningu frá öllum landshlutum. Kristján er mikill frumkvöðull í eldhúsinu og alltaf spennandi að fara í mat til hans.