Átta manna hópur sem lokið hefur Cranio–námi leigir aðstöðu í Sundhöll Selfoss öll þriðjudagskvöld og bíður þar upp á Cranio–meðfeðir í vatni. Canio er höfuðbeina– og spjaldhryggjameðferð sem hentar fólki og börnum á öllum aldri. Fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði býður þessi hópur upp á Cranio–hópatíma þar sem fólki er boðið upp á að fljóta og þiggja létta Cranio–meðferð á meðan. „Þetta hefur verið svo vinsælt að það hefur verið fullt í öll skiptin frá byrjun. Hina þriðjudagana er boðið upp á einstaklingsmeðferðir þar sem tveir eða fleiri meðferðaraðilar sinna hverjum skjólstæðing,“ segir Ragnhildur Harðardóttir, einn meðferðaraðili Cranio. Blaðamaður fór og prófaði Cranio og upplifði gífurlega slökun í meðferðinni.
Fylgja eftir flæði líkamans
Hefðbundin Cranio-meðferð getur bæði verið á bekk og í vatni. Í meðferðinni er það líkaminn sem ræður ferðinni. Brynja Rúnarsdóttir, annar meðferðaraðili segir töfra liggja í vatninu.
„Við erum að fylgja eftir flæði líkamans. Mér finnst svo gott að gera það í flæði vatnsins. Svo fer maður bara í flæði líkamans. Allir líkamar hafa einhver áföll. Það er enginn sem lendir ekki í einhverju áfalli eða meiðslum. Ef það eru bólgur til dæmis eða áföll sem sitja föst í líkamanum þá leiðumst við í það og líkaminn nær að nýta hendurnar okkar og í rauninni bara hugann. Þetta eru bara hendur og hugurinn sem við erum að bjóða. Við erum bara vilji til góðs í rauninni. Fyrir mér er vatnið svo rosalega máttugt. Það er líka svo hreinsandi, það hreinsar allt. Mér finnst svo miklir töfrar sem geta gerst í vatninu.“
Snertingin sem líkaminn fær í meðferðinni er látlaus en hefur samt áhrif. „Það er talað um að þessar léttu snertingar hafi áhrif á bandvef líkamans og að hann geymi áföll og það sem sem fólk hefur lent í,“ segir Ragnhildur.
Það er alltaf sá sem kemur í meðferðina sem stjórnar. „Ég vil meina að þegar viðkomandi er búinn að panta tíma þá byrjar undirmeðvitundin hans að undirbúa: „Hvað er ég að fara að gera í þessum tíma?“ Svo er það bara algjörlega hans. Við erum bara verkfæri fyrir viðkomandi aðila að vinna úr því sem hann vill,“ segir Brynja.
Losar um tilfinningar og vinnur á verkjum
Fólk hefur fengið alls konar tilfinningalosanir úr Cranio-meðferð ásamt því að vinna á verkjum. „Vatnið tekur svo mikið. Vatnið er tilfinningar. Þú ert upprunalega í vatni. Minni líkamans er hversu gott það var að vera í vatninu í móðurkviði, í hlýjunni. Það eru oft tilfinningalosanir. Svo náttúrulega líka líkamlegir verkir. Það er ein að koma til dæmis ítrekað í hópatíma og einstaklingsmeðferðir og finnur hvernig þetta hjálpar henni við bakið og alls konar verki,“ tekur Brynja fram.
Sumir láta einn tíma nægja í Cranio-meðferð en aðrir koma oftar og er mælt með því.
„Mér finnst ég persónulega vera að upplifa það að oft þegar fólk er að byrja að koma þá er það kannski að koma af því það heyrði einhvern tala um Cranio-meðferðir og það er forvitið. Í vatni er engin fyrirstaða og stundum fer fólk á kaf og heldur að við séum að ýta því og finnst þetta voða skrítið, en við erum bara að fylgja eftir hreyfingum líkama þeirra. Svo útskýrum við þetta og fólk yfirstígur þennan ótta og verður slakara fyrir vikið. Því oftar sem fólk kemur í meðferðir hvort heldur á bekk eða í vatnið, því meira verður traustið á milli meðferðaraðila og skjólstæðings og þá leyfir fólk sér kannski að fara dýpra. Það veit það getur treyst aðstæðum og fólkinu sem er að vinna með það. Þá losnar um meira,“ segir Ragnhildur.

„Oft þegar fólk er að koma í vatnið til dæmis í fyrsta skipti þá eru alls konar ljós og hljóð og eitthvað. Stundum fer fólk bara í kollhnís og fer á kaf. Fólk heldur að við séum að gera þetta, en það er ekki, við erum bara að fylgja eftir kannski. Svo kannski nær maður að útskýra þetta og fólk yfirstígur þennan ótta eða hræðslu og þá verður það slakara fyrir vikið,“ bætir Ragnhildur við.
Meðferð fyrir fólk og dýr
Brynja og Ragnhildur segja það mjög misjafnt hvort fólk velji að vera á bekk eða í vatni. Margir séu þó vatnshræddir.
„Það er yfirleitt einhver ástæða fyrir því hjá viðkomandi aðila. Þegar undirmeðvitundin byrjar að vinna meðferð í vatni þá er það oft sem hún leiðir í sína fæðingu. Eðlileg fæðing er svakalega erfið, það er erfitt að vera fóstur og troðast niður um fæðingarveginn. Það er alls konar sem gerist og þú ert kannski ekki tilbúin að sleppa mömmu þinni. Þetta er svo mikið ferli að fólk fer stundum til baka,“ talar Brynja um.
Meðferðin er fyrir alla. „Það er verið að meðhöndla alveg niður í nýbura, fóstur í kviði og dýr,“ segir Ragnhildur. „Svo eru óléttar konur. Þær eru voðalega hrifnar af þessu. Ljósmæðurnar hafa verið að læra þetta,“ bætir Brynja við.
Meðferðin hefur fengið góð viðbrögð frá óléttum konum sem finna hversu árangursrík hún er.
„Ég er ein af stelpunum í lauginni á Selfossi. Hef verið beggja vegna borð, bæði veitt og þegið meðferð. Síðastliðið sumar átti ég von á barni og á meðgöngunni fór ég reglulega
í Cranio í lauginni. Mér fannst það virkilega endurnærandi og í lauginni náði
ég að losa um spennu í skrokknum og fékk aldrei bjúg. Eftir því sem ég varð þyngri á mér gerði vatnavinnan meira fyrir mig. Ég kom heim endurnærð á líkama og sál,“ segir Ragnhildur Guðrún Eggertsdóttir um meðferðina.
Fólk áttar sig ekki á áföllunum
Brynja segir að á tímabili hafi hana langað að einblína á börn og óléttar konur af því hún hafði farið á fæðingarnámskeið þar sem hún fékk að upplifa dásamlega endurforritun á sinni stórkostlegu fæðingu. Þar voru Cranio-félagar hennar fullkomlega til staðar fyrir hana í 100% öruggu rými.
„Svo er þetta bara þannig að við höfum öll fæðst og það gerist svo oft, það er dásamlegt að sjá fullorðið fólk af öllum kynjum leyfa sér að verða ungabörn í fanginu á manni. Þá ertu að fara á stað í upphafi þínu þar sem þér leið rosalega vel. Þegar maður gerir það þá kemur eitthvað gott. Þetta er pínu eins og maður sé að endurfæðast. Maður kemur til baka og búinn að finna þennan neista. Það er svo mikilvægt dagsdaglega.“

Líkaminn geymir allt
Ragnhildur segir að fólk átti sig oft ekki á áföllunum sínum fyrr en það fer að vinna í sjálfu sér.
„Við erum að geyma í líkamanum alls konar áföll og uppákomur, bæði alvarleg og minna alvarleg áföll sem fólk fer í gegnum. Það áttar sig ekki á því fyrr en það fer í sjálfsvinnu hvað það í rauninni er sem er að hafa áhrif á sig– af hverju það er að bregðast svona við alls konar aðstæðum. Maður er að geyma eitthvað sem maður man ekkert eftir.“
Ragnhildur minnist á mjög djúpa og erfiða meðferð sem hún fór í gegnum í náminu sínu sem tengdist fæðingunni sinni.
„Ég fer með ásetning í meðferð að fara í gegnum mína eigin fæðingu. Ég kemst að alls konar hlutum sem ég hafði ekki hugmynd um að hefðu gerst. Ég upplifði að ég hafi átti rosalega erfiða fæðingu og gengið í gegnum alls konar erfiðleika sem gaman væri að fá staðfestingu á. Mér leið í rauninni eins nýfæddum hvítvoðung á meðan þessu stóð. Þú ert samt alveg með meðvitund á meðan þetta á sér stað og þetta er ekki hægt að leika.“
Þegar fólk fer í meðferð getur vinnsla staðið í einhvern tíma á eftir. Alls konar tilfinningar geta komið upp. „Eftir meðferð getur fólk orðið ofurviðkvæmt, grátgjarnt, svefn getur breyst og ýmislegt annað orðið öðruvísi. Þá er bara eitthvað að koma sem fólk verður að leyfa að koma því það er einhver úrvinnsla í gangi,“ segir Ragnhildur að lokum.