Í Árnessýslu eru átta lionsklúbbar starfandi með vel á þriðja hundrað félaga. Klúbbarnir standa fyrir öflugu starfi sem miðar að því að styðja við góð málefni innan nærumhverfis og á lands- og alþjóðavísu. Í starfi klúbbanna er lagt mikið upp úr því að meðlimum klúbbanna líði vel á samverustundum og að góðar minningar verði til.
Þann 16. janúar síðastliðinn hafði Lionsklúbbur Hveragerðis frumkvæði að fundi á Hótel Örk um virkjanamál og starfsemi Landsvirkjunar. Klúbburinn bauð öðrum lionsklúbbum í Árnessýslu að taka þátt í fundinum. Mæltist þetta framtak mjög vel fyrir. Það mættu um 100 manns úr lionsklúbbum víðs vegar úr héraðinu.
Fundarstjóri var Lionsmaðurinn Valdimar Hafsteinsson, forstjóri Kjöríss.

Sérstakur gestur og fyrirlesari á fundinum var Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri á framkvæmdasviði Landsvirkjunar. Ásbjörg fór yfir það helsta sem er á döfinni í virkjanaframkvæmdum hjá Landsvirkjun. En virkjanir í Þjórsá framleiða mjög stóran hluta af rafmagni því sem notað er á Íslandi. Má þar nefna virkjanir við Búrfell, Hrauneyjafoss, Sigöldu, Sultartanga, Vatnsfell og Búðarháls. Landsvirkjun er því nokkuð stór vinnuveitandi á Suðurlandi. Hvammsvirkjun í Þjórsá ber einna hæst í þeim áformum sem eru um fyrirhugaða virkjanauppbyggingu. En sú virkjun hefur verið í undirbúningi með hléum í fast að tveimur áratugum. Margar hindranir hafa tafið að bygging þeirrar virkjunar geti hafist og hittist þannig á að daginn fyrir umræddan fund var framkvæmdaleyfi fellt úr gildi. Virkjunin verður um 95 megawött að stærð. Einnig gat Ásbjörg þess að fyrirhuguð væri vindaflsvirkjun í Búrfellslundi við Vaðöldu á Þjórsársvæði skammt innan við Búrfell. Þetta verður fyrsta vindorkuver landsins. Um er að ræða 28 vindmyllur á 17 ferkílómetra svæði. Það mun skila 120 megawöttum. Vonir standa til þess að spaðar vindmyllanna verði farnir að snúast í lok árs 2026. Auk þess var fjallað um ýmis önnur verkefni sem eru á borði Landsvirkjunar.

Ásbjörg gat þess að samstarf við þau sveitarfélög sem liggja að Þjórsá hafi verið með miklum ágætum. Góð stemning skapaðist á fundinum og lögðu fundarmenn fram margar málefnalegar spurningar sem Ásbjörg svaraði með mjög greinargóðum hætti.
Fyrir hönd lionsklúbbanna í Árnessýslu,
Kristófer Tómasson.