6.7 C
Selfoss

Á döfinni í ML- Dagamunur , Dolli og Árshátíð

Vinsælast

Á hverju vori gera nemendur Menntaskólans að Laugarvatni sér dagamun. Dagana 12. og 13. mars er hefðbundið skólastarf brotið upp með fjölbreyttri dagskrá undir heitinu Dagamunur. Það sem er í boði er mismunandi á milli ára og fer eftir áhuga nemenda. Meðal þess sem hefur verið í boði undanfarin ár var til að mynda zumba-námskeið, hrútaþukl, brjóstsykursgerð, klifur, naglaskreytingar, saumanámskeið, golfnámskeið og fyrirlestur um heilbrigði og holla lífshætti. 
Útvarp Benjamín er ávallt á sínum stað eins og áður, nemendur fá tækifæri til að stjórna útvarpsrás þessa vikuna. Nemendur í 3. bekk reka veitingasölu og gengur það ávallt glimrandi.

Í fyrra, árið 2024, bauð Menntaskólinn upp á opið hús á fyrri degi Dagamuns en sá viðburður er sérstaklega hugsaður fyrir nemendur í 10. bekkjum grunnskóla og forráðamenn þeirra sem leggja nú mikla vinnu í að velja sér framhaldsskóla. Gestum gefst þá tækifæri til að koma við í skólann, kynnast staðháttum og húsakosti ásamt því að sjá það fjölbreytta og litríka starf sem fram fer innan veggja skólans. Meðal þeirra sem tóku á móti gestum voru skólameistari, áfangastjóri og stjórn nemendafélagsins. 
Mun fleiri mættu en við áttum von á, sem gladdi okkur mikið. 
Í ár ætlum við að aftur að halda opið hús þann 12. mars milli kl. 15-17 og bjóðum áhugasöm hjartanlega velkomin. 

Föstudaginn 14. mars er síðan komið að Dollanum sem er árleg æsispennandi keppni milli allra nemenda skólans. Nemendum er skipt upp í lið og efnt er til góðlátrar keppni sem haldin er um allan skólann og endar síðan í íþróttahúsi Laugarvatns þar sem sigurliðið fær hinn rómaða Dollabikar. Að kvöldi dags er síðan árshátíð ML en þar koma nemendur og starfsfólk saman í sínu fínasta pússi og skemmta sér saman.

Löng hefð er fyrir því að nemendur setji upp leikrit á vorönn. Djöflaeyjan varð fyrir valinu í þetta sinn. Frumsýning leikritsins er þann 20. mars í Aratungu og verður miðasala auglýst síðar. Leiklistarlíf í Menntaskólanum að Laugarvatni er öflugt og hefur sannarlega fengið byr undir báða vængi undanfarin ár með stórauknum áhuga nemendahópsins á leiklist og tengdum greinum. Við í ML erum afar stolt af öflugum nemendahópi skólans sem leggur á sig gríðarlega vinnu við að setja á svið leikverk sem myndu sóma sér vel á sviði á mun stærra sviði.

Nýjar fréttir