6.1 C
Selfoss

Þægindi og meira næði í lúgunum

Vinsælast

Lyfjaval opnar sjötta bílaapótek sitt að Eyravegi 42 á Selfossi laugardaginn 8. febrúar kl. 9. Um er að ræða apótek með þremur bílalúgum sem verða opnar mánudag til laugardags frá 9 til 21. Lyfsöluleyfishafi er Helma Björk Óskarsdóttir, klínískur lyfjafræðingur. Lyfjaval rekur átta apótek, sex á höfuðborgarsvæðinu, eitt í Reykjanesbæ og nú á Selfossi.

„Þetta er mjög spennandi og við hlökkum mikið til,” segir Helma Björk. Hún segir starfsfólkið hafa beðið lengi eftir opnun, í ljósi erfiðleika sem komu upp við þetta gamla hús, en nú sé komið að þessu og það sé mjög ánægjulegt. Nettó var nýlega opnað í sama húsi.

Ný verslun Lyfjavals er í sama húsnæði og nýja Nettóverslunin.
Ljósmynd: dfs.is/EHJ.

„Við munum bjóða upp á lengri opnunartíma en tíðkast hefur á svæðinu og okkar markmið er sýna fólki hér hversu þægilegt er að koma í lúgurnar. Það hentar mörgum að þurfa ekki að fara út úr bílnum og svo kann fólk vel að meta það næði sem býðst vilji fólk ræða við lyfjafræðinga og annað starfsfólk um mál sem ekki er gott að gera í kringum aðra,“ segir Helma. Hún segir að ákveðið hafi verið að byrja með að hafa opið sex daga vikunnar en skoðað verði með jákvæðum huga að bæta sunnudögunum við verði tilefni til þess.

„Auk bílalúganna erum við með fína verslun og inn í hana verður opið frá kl. 9 til 19. Bílalúgurnar verða síðan opnar til kl. 21. Við ætlum að kappkosta að bjóða góða þjónustu og allar helstu lykilvörur sem fólk er vant að geta fengið í apóteki, auk lyfja og lausasölulyfja,“ segir Helma Björk.

Starsfmenn Lyfjavals vinna hörðum höndum við að koma öllu á sinn stað fyrir opnun.
Ljósmynd: dfs.is/EHJ.

Nýjar fréttir