Sunnlendingurinn Dagný Brynjarsdóttir er komin í landsliðshóp íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta á nýjan leik. Hún spilar með West Ham á Englandi og er næstmarkahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.
Dagný spilaði síðast fyrir landsliðið í apríl 2023 sem var þá hennar 113. landsleikur. Hún hefur skorað 38 mörk fyrir liðið.
Hún eignaðist sitt annað barn fyrir um ári síðan. Í nóvember lýsti hún yfir óánægju sinni í viðtali við The Athletic að hafa ekki fengið kallið í landsliðið löngu eftir barnsburð. Hún hafi verið komin aftur í liðið eftir skemmri tíma eftir að hún eignaðist fyrsta barnið sitt. Hún sagði einnig í viðtalinu að hún hafði ekki heyrt í Þorsteini Halldórssyni, þjálfara liðsins, í sjö mánuði. Nú snýr hún hins vegar aftur í landsliðið fyrir komandi leiki við Sviss og Frakkland í Þjóðadeildinni.