Steinar Sigurjónsson er matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á að þakka Tor vini mínum fyrir áskorunina. Það er gaman að bjóða Tor í mat því hann tekur alltaf hraustlega til matar síns, þrátt fyrir að það sjáist ekki á honum.
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að lygilega einföldu risarækju-tagliatelle. Ég er mjög hrifinn af einföldum réttum sem innihalda fá hráefni og tekur ekki langan tíma að elda, en bragðast samt vel. Rétturinn hentar vel við öll tilefni, hvort sem maður er að halda matarboð eða vantar eitthvað einfalt til að henda í á þriðjudagskvöldi. Þá er hann einnig mjög útileguvænn og sniðugt að grípa til hans á ferðalögum sumarsins þegar allir eru komnir með ógeð af grilluðum kótilettum og pylsum.
Uppskriftin miðast við máltíð fyrir 3-4 vini, en það er auðvelt að stækka eða minnka hana eftir þörfum.
Hráefni:
400 gr ferskt tagliatelle (eða 500 g þurrt tagliatelle)
500 gr frosnar risarækjur
1-2 dollur af Allioli – gott að byrja á einni og bæta svo við eftir smekk (ég nota þetta í gulu dollunum)
1 sítróna
150 gr fersk steinselja
Rifinn parmesan ostur eftir smekk
Chilli-flögur – má sleppa
Marinering fyrir rækjurnar
4 hvítlauksrif
1/2 sítrónusafi og börkur
1 tsk paprikukrydd
1/2 tsk cumin
1/2 tsk hvítlauksduft
1/4 tsk salt
1/4 tsk pipar
1/8 tsk cayenne pipar
1 msk ólífu olía
(ef maður er á ferðalagi eða að flýta sér er einnig hægt að einfalda málið og marinera rækjurnar upp úr t.d. sweet chilli sósu)
Aðferð
1. Risarækjurnar afþýddar undir köldu vatni í 5 mínútur. Á meðan er marineringin græjuð og rækjunum svo blandað við hana.
2. Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Á meðan pastað sýður er tilvalið að saxa niður steinselju og skera sítrónuna í báta.
3. Risarækjurnar steiktar á vel heitri pönnu í 1-2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Passa að steikja þær ekki of lengi. (Eða grillaðar í álbakka á grilli þar til þær eru steiktar í gegn)
4. Pastað sett í stóra skál og allioli-inu blandað vel saman við.
5. Rækjunum bætt út í skálina og blandað við pastað.
Þegar búið er að setja réttinn á disk er hann svo toppaður með steinselju, vel af rifnum parmesan og sítrónubátur kreistur yfir. Einnig er gott að sáldra smá chilli-flögum yfir til að gefa réttinum meiri dýpt og bragð.
Gott að bera fram með hvítlauksbrauði og ísköldu rósavíni.
Ég skora á vin minn og nærsveitung, Ingva Rafn Óskarsson á Spóastöðum að koma með næstu uppskrift, helst eitthvað beint frá býli. Hann hefur verið að prófa sig áfram með einfalda rétti fyrir stór heimili og dundað sér við að taka upp kennslumyndbönd fyrir byrjendur í eldhúsinu, þannig að við ættum ekki að verða svikin af uppskrift frá honum.