Það var skemmtilegt að fá það verkefni að láta hugann reika til þess tíma þegar ég var kosningastjóri Vigdísar Finnbogadóttur á Suðurlandi. Það var fjölbreytt og skemmtileg lífsreynsla sem gleymist seint og rifjaðist upp við áhorf þáttanna um Vigdísi á RÚV.
Ævintýrið byrjaði á vordögum árið 1980 þegar við komum saman nokkrir karlar og ræddum um undirbúning kosninganna og þá frambjóðendur sem höfðu gefið kost á sér. Nokkrir okkar voru hrifnir af Vigdísi en í hópnum mátti finna flokksbundna Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem áttu í innri baráttu en hópurinn ákvað að fylgja Vigdísi. Ég varð kosningastjóri meðal annars vegna þess að ég var ekki flokksbundinn og það leysti mörg vandamál.
Fyrsta verkefni okkar var að leysa þessi praktísku atriði eins og að útvega kosningaskrifstofu og fleira. Þá komu til skjalanna hörkuduglegar konur sem létu til sín taka. Húsnæði var boðið fram til kosningaskrifstofu og fljótt varð ljóst að aldrei myndi skorta sjálfboðaliða, kaffimeðlæti, hugmyndir, jákvæðni né annað. Hratt spurðist út hvar kosningaskrifstofan væri og mikið var spjallað þar í allan aðdraganda kosninganna. Mér er minnisstætt að karlar voru feimnari að koma og viðurkenna að þeir styddu Vigdísi og tóku oft fram að þeir gerðu það ekki en allir voru velkomnir í spjall, sama hvert atkvæðið færi að lokum. Mig langar að nefna atriðið í þáttum Vigdísar þar sem Magga vinkona hennar segir við mann sinn að þau hefðu ekki þurft að kjósa því atkvæði þeirra hefðu núllast út – og hann svarar þannig að maður skilur að þó að hann væri yfirlýstur stuðningsmaður annars frambjóðanda hafi hann samt sem áður kosið Vigdísi. Þetta er sama tilfinning og ég hafði í kosningabaráttunni. Það er einnig gaman að segja frá því að sumir tjáðu sig án orða. Ég man sérstaklega vel eftir bónda sem var ekki Vigdísarmaður og til að tjá sig um hennar framboð ákvað hann að keyra með skítadreifarann fram hjá eldhúsglugga húsfreyju þar sem við ræddum málin yfir kaffibolla. Mér þótti þetta afar skemmtilegt.
Framkvæmd kosningabaráttunnar var meðal annars fólgin í fundarherferð um allt land þar sem ófá félagsheimili voru heimsótt auk vinnustaða. Á þessum tíma voru ekki margar konur í sveitastjórnum þannig að karlar voru meira áberandi. Konur mættu hins vegar vel á framboðsfundi og létu í sér heyra. Alls staðar var okkur tekið vel og Vigdís fékk allmargar spurningar um menn og málefni. Svo ég vísi aftur í þættina, þá kom fram sú flóra spurninga sem rataði í hennar fang. Það var í alla staði mikið og gott samband við teymi Vigdísar í bænum og hafði það mikið að segja um andann og vinnubrögðin. Það voru skýr skilaboð frá Vigdísi til allra kosningastjóra að ekki undir neinum kringumstæðum ætti að níða annan frambjóðanda niður.
Reynslubankinn stækkaði mikið á þessu tímabili. Að ræða við fólk um alls kyns málefni, ekki bara Vigdísi og forsetaembættið, var ómetanlegt og afar skemmtilegt og margt áhugavert kom þar fram. Það er gaman að segja frá því að þegar úrslit kosninganna lágu fyrir komu margir og þökkuðu fyrir góða baráttu og tekið var sérstaklega fram að umræður og andinn á kosningaskrifstofu Vigdísar hefði skarað fram úr. Það þótti mér vænt um að heyra.
Ég vil að lokum taka það fram að allt starf í kosningabaráttunni var unnið í sjálfboðavinnu. Allt. Þetta var ómetanlegt og ég kann öllum hinar bestu og mestu þakkir. Ég finn ekki nógu sterk orð til að lýsa þakklæti mínu í garð þessa frábæra fólks sem lyfti Grettistaki í þessu stóra verkefni. Þetta var ómetanleg lífsreynsla og þegar Vigdís var orðin forseti bauð hún öllu sínu fólki ásamt og mökum á Bessastaði og sú heimsókn fór beint í hinn dýrmæta minningarbanka.
Grímur Bjarndal.