Sælir Sunnlendingar!
Þórismót er ein af þeim hefðum sem hefur tekist að viðhalda hér við Menntaskólann að Laugarvatni í fjölmörg ár. Þórismót fór fram 27.-30. jan sl. En hvað er eiginlega Þórismót? Í hverjum mánuði er reynt að halda svokallað bekkjarmót hér við ML, þar sem fyrsti, annar og þriðji bekkur keppa á móti hvoru öðru í einhverri tiltekinni íþrótt. Þórismót er ekki ólíkt bekkjarmóti en eini munurinn er sá að Þórismót stendur yfir alla vikuna og keppa því nemendur í fjórum greinum í staðinn fyrir einni. Að þessu sinni var keppt í fótbolta, sundi, blaki og brennibolta. Nemendur sem ekki voru að keppa mættu að sjálfsögðu til að hvetja bekkinn sinn. Yfir vikuna safna bekkirnir stigum og undir lok vikunnar kemur í ljós hvaða bekkur fær heiðurinn að vera sigurvegari Þórismótsins. Það var annar bekkur sem tók sigurinn af hólmi í ár eftir æsispennandi einvígi við þriðja bekk.

Næstu vikur verða heldur betur ekki rólegar því brátt fer að koma að stjórnarskiptum hér við menntaskólann þar sem ný stjórn nemendafélagsins tekur við af núverandi stjórn.
Sæbjörg Erla Gunnarsdóttir,
ritnefndarformaður Stjórn Mímis,
Iris Dröfn Rafnsdóttir,
vef- og markaðsformaður Stjórn Mímis.