Alþjóðlegt mót (RIG) í JUDO fór fram 25. janúar í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Keppendur voru tæplega 70 og þar af um helmingur erlendir keppendur. Judofélag Suðurlands átti fjóra keppendur, þau Böðvar Arnarsson, Söru Ingólfsdóttur, Írisi Ragnarsdóttur og Arnar Helga Arnarsson. Þá var Heiða Arnardóttir einnig skráð en fékk ekki keppni þar sem vantaði keppendur í hennar þyngdarflokki.
Arnar Helgi náði frábærum árangri eða silfurverðlaunum. Hann vann í fyrstu viðureign Kjartan Hreiðarsson og í annarri viðureign Viktor Kristmundsson. Þar með hafði Arnar Helgi áunnið sér rétt til þess að berjast um gullið en varð að láta í minni poka fyrir Norðmanninum Hans Leo og hreppti þar með silfur.
„Böðvari, Söru og Írisi gekk ekki eins vel í þetta skiptið en þau eiga mikið inni og gengur betur næst,“ segir í tilkynningu frá félaginu.