Ótímabundið verkfall er hafið í leikskólanum Óskalandi í Hveragerði. Hann er eini skólinn á Suðurlandi sem er í verkfalli. Verkföll eru í fjórtán leikskólum í ellefu sveitarfélögum. Tímabundin verkföll eru í sjö grunnskólum.
Ljóst var að verkföll yrðu eftir að samningfundi í Karphúsinu lauk um tíuleytið í gærkvöld án niðurstöðu. Ríkissáttasemjari hafði lagt fram innanhússtillögu í lok síðustu viku sem samninganefndir sveitarfélaga- og ríkis höfðu samþykkt fyrir sitt leyti. Kennarar voru hinsvegar ekki sáttir og vildu gera ákveðnar breytingar á tillögunni sem ekki náðist sátt um.
Á heimasíðu KÍ er haft eftir Magnúsi Þór Jónssyni formanni Kennarasambandsins að það séu kennurum mikil vonbrigði að aðilar hafi ekki náð að klára verkefnið og þar með forða verkföllum. „Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að ná samningum en allt kom fyrir ekki. Nú stöndum við öll saman. Áfram KÍ,“ segir Magnús Þór.