Líkt og undanfarin ár hafa metaskrár HSK í frjálsíþróttum verið uppfærðar í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss.
220 HSK-met voru sett á síðasta ári, 83 met voru sett innanhúss og 137 utanhúss. Metin voru óvenjumörg og talsvert fleiri en undanfarin ár, en t.a.m. voru 157 HSK-met sett árið 2023.
Keppendur 11 – 22 ára settu 96 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu fjögur met, keppendur í flokkum 30 ára og eldri settu 115 met og keppendur í fötlunarflokkum settu fimm met. 40 þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.
Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, keppandi í 15 ára flokki, setti flest met í yngri aldursflokkum og upp í fullorðinsflokk, en hún setti 30 HSK-met á árinu í fjórum flokkum og voru níu þeirra jafnframt Íslandsmet. Helga Fjóla Erlendsdóttir úr Garpi, einnig keppandi í 15 ára flokki, setti 21 HSK-met í fimm aldursflokkum og eitt þeirra var landsmet. Næst kom svo Andri Már Óskarsson, 11 ára keppandi úr Umf. Selfoss, en hann setti samtals 14 HSK-met í fjórum aldursflokkum og systir hans Anna Metta Óskarsdóttir, keppandi Selfoss í 14 ára flokki, kom þar á eftir með átta HSK-met í fjórum flokkum. Bæði settu þau eitt landsmet á liðnu ári. Í flokkum fatlaðra setti Sigurjón Ægir Ólafsson úr Suðra fimm HSK-met.
Í aldursflokkum 30 ára og eldri setti Ólafur Guðmundsson Selfossi samtals 53 HSK-met á árinu. Fyrri hluta árs var það í flokki 50–54 ára, síðan í flokki 55–59 ára, en í eldri aldursflokkum gildir afmælisdagur keppenda. Árný Heiðarsdóttir sem lengst af hefur keppt fyrir Óðin í Vestmannaeyjum, en gekk til liðs við Selfoss á árinu, setti 26 HSK-met í flokki 65 – 69 ára. Fjórtán þessara meta voru einnig landsmet. Ágústa Tryggvadóttir Selfossi kom næst með 12 HSK-met í flokki 40 – 44 ára og sjö þeirra voru einnig landsmet.
HSK-metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK-meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK, www.hsk.is.