0.6 C
Selfoss

Jóli Hólm varð til í brúðkaupi Jóa Berg

Vinsælast

Uppistandssýningin Jóli Hólm sem sýnd er í Bæjarbíó er ein af mörgum jólasýningum sem sýndar eru í desember. Sólmundur Hólm og Halldór Smárason sameina þar krafta sína þriðja árið í röð við góðar undirtektir. Uppselt hefur verið á allar sýningar en samtals sýna þeir 39 sinnum á 23 sýningardögum, oftast tvisvar á dag. Halldór Smárason er búsettur í Hveragerði og fór hann yfir sýninguna með blaðamanni.

Forréttindi að sýna þessa sýningu

Halldór segir það ótrúlega gaman að vera búinn að selja upp á sýningarnar. „Það eru algjör forréttindi að geta verið með sýningu sem gengur og gengur. Þetta er í þriðja skipti sem við gerum þetta og á fyrsta tímabilinu voru 27 sýningar, og 34 í fyrra held ég. Þetta er alltaf að aukast aðeins.“

Sóli sér um uppistandið á sýningunni og Halldór er tónlistarstjóri. „Það er slatti af lögum sem við erum að flytja, bæði hann sem eftirhermur og svo bara einhver jólalög sem eru stemning. Það er svona mitt hlutverk,“ segir Halldór.

Undirbúningur sýningarinnar byrjar nokkrum mánuðum fyrir desember. „Við erum að móta þetta saman kannski allt haustið, ákveða lög og svo geri ég útsetningar af því það er ekki heil hljómsveit á sviðinu heldur bara ég með fullt af einhverjum hljómborðum og dóti. Þannig að bæði er ég að búa til tónlistina fyrir sýningarnar og að spila á sýningunni sjálfri,“ tekur Halldór fram.

Ljósmynd: Ólafur Hannesson.

Tilviljun að hafa farið í þetta verkefni

Sóli átti upphaflega hugmyndina að sýningunni og segir Halldór það algjöra tilviljun að þeir hafi farið í þetta verkefni saman.

„Við kynntumst aðeins fyrir mörgum árum þegar hann var að vinna á Rás 2 og ég kom stundum í viðtöl og að spila. Svo bjuggum við á sama stað í Vesturbæ og vorum nágrannar í nokkra mánuði eða ár og var þá einhver smá samgangur. Svo 2022, fyrir fyrsta tímabilið, þá erum við báðir að gigga í brúðkaupi á Spáni hjá Jóa Berg. Þá erum við saman yfir langa helgi og hann bara spyr hvort ég sé til í að vera með í þessu. Þetta var eiginlega algjör tilviljun að þetta skyldi gerast.“

Álagið ekki farið að bíta í

Halldór segir að þegar þeir byrjuðu á þessu fyrst fyrir tveimur árum hafi honum fundist algjör bilun að sýna svona margar sýningar. „Ég hafði aldrei spilað á fleiri tónleikum en kannski sex. Maður er ekkert vanur að koma fram á tónleikum sem ganga bara endalaust og ég hef ekki mikið verið í leikhúsinu heldur. Að fara svo í þetta er algjör bilun og það tekur alveg gjörsamlega yfir allt annað.“

Aðspurður hvort álagið sé ekki mikið segir Halldór að þeir Sóli séu enn mjög góðir þegar 15 sýningadagar eru eftir. „Þetta er ekkert farið að bíta í ennþá. Kosturinn við það að vera með eina sýningu alltaf á sama staðnum er að maður þarf ekki alltaf að vera að fara á æfingar. Ég er vanur að spila á fullt af tónleikum síðustu ár. Þá er maður alltaf að róta öllu draslinu sínu á milli æfingastaða sem er miklu meira maus. Það fer rosalega mikil orka í það. Það eru þvílík forréttindi að það sé ekkert annað í gangi í Bæjarbíó heldur en þetta. Við þurfum aldrei að taka neitt niður og setja aftur upp.“

Þar sem álagið við sýninguna er svona mikið þá hefur Halldór neitað öllum öðrum giggum. „Fyrir tveimur árum þá var ég með tvenna aðra tónleika sem ég var að sjá um. Kóratónleika með hinsegin kórnum og svo var ég með Heru Björk. Það gekk alveg upp þá en þetta er bara of mikið til að vera í öðru. Þetta er alveg klikkun.

Ljósmynd: Baldur Kristjánsson.

Tilbúinn í þetta maraþon

Upphaflega áttu sýningarnar að vera 37 en svo bauðst strákunum að bæta við tveimur sýningum á Þorláksmessu. „Þá hugsuðum við með okkur bara „af hverju ekki?“ Þetta var bara eins og að vera búinn að skrá sig í maraþon. Ég er tilbúinn að hlaupa maraþon og þá er ekkert mál að hlaupa einn kílómeter í viðbót. Maðurgírastt bara í það. Þegar maður veit að þetta eru svona margar sýningar þá er þetta bara eitthvað sem maður veður í,“ segir Halldór og tekur fram að það sé ótrúlega gaman að sjá sýningarnar seljast upp.

Hann segir þá Sóla alltaf vilja gera jafn vel og árið áður og jafnvel betur. „Sem betur fer höfum við alltaf fengið þá tilfinningu. Við erum alveg að fá þau viðbrögð frá áhorfendum að þetta sé bara alltaf að verða betra,“ segir Halldór og segir að honum finnist gaman að sýningin sé orðin árleg jólahefð hjá mörgum.

Blanda af jólum og uppgjöri á árinu

Sýningin er blanda af jólastemningu og uppgjöri á árinu. „Það er verið að fara yfir skemmtileg mál frá árinu, smá uppgjör, en líka klárlega jólasýning. Það eru alltaf jólalög og alls konar tengingar við jólin á einn eða annan hátt. Þetta kemur manni í jólafíling, það er alveg þannig. Ég kemst í jólafíling bara í september,“ segir Halldór og hlær.

Hann segir engar tvær sýningar vera nákvæmlega eins. „Salurinn er svo misjafn. Stundum er bara þvílíkur gír og stundum er meiri hlustun. Þetta er bara mjög misjafnt. Stundum er fólk bara búið að prjóna aðeins yfir sig á seinni sýningum á laugardögum. Það er bara eins og það er.“

Eins og að vera sjómaður

Þar sem álagið í desember er mikið hjá Halldóri þá hefur hann takmarkaðan tíma í jólaundirbúning. Hann segir það lenda mest á konunni sinni. „Við gætum hvorugir gert þetta ef ekki væri fyrir konurnar, þær eru rosalega mikilvægar. Það eru náttúrulega börn heima en þær sýna þessu mikinn skilning. Þetta er svolítið eins og að vera sjómaður, maður er bara farinn af heimilinu. Þetta er algjör törn en á mánudögum og þriðjudögum getur maður sett upp jólaseríur og reynt að baka einhverjar sortir. Það er alveg geggjað líka.“

Halldór segir að hann muni fara beint í jólaundirbúninginn þegar sýningum lýkur.

„Ég hef alltaf verið mikið jólabarn, hvort sem það er mikið eða lítið að gera í spilamennsku þá elska ég jólin og kemst alltaf í jólaskap snemma. Núna í ár koma mamma mín og pabbi sem búa á Ísafirði og verða með okkur og svo eru þetta fyrstu jólin hans Theodórs okkar sem er hálfs árs. Þannig að það verður rosa sérstakt og í fyrsta skipti sem við erum stórfjölskyldan. Ég elda um jólin og svo búum við til jólaísinn. Svo verð ég alltaf að komast í skötu. Ég er að vestan. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af því að borða hana, hún er ekkert sérstaklega góð, bara alls ekki, en bara fílingurinn og lyktin. Þetta er svo mikið möst. Mér finnst jólin ekki koma nema ég fái viðbjóðslega lykt fasta í fötin mín.“

Bótagerði minnir á jólin

Aðspurður um jólahefðir segist hann vera með margar hefðbundnar hefðir en að ein sé frábrugðin öðrum.

„Þegar ég var lítill þá setti ég aldrei skóinn út í glugga heldur gerði amma mín ótrúlega sætt dagatal úr bútasaumi bara úr alls konar afgöngum. Dagatalið er gata með 24 húsum sem endar á kirkju, það er svo fallegt. Amma var bara fátæk kona sem einhvern veginn átti ekki mikið á milli handanna þannig að það var bara gert heimatilbúið dagatal sem hefur svo farið niður fjölskylduna. Þetta minnir mig alltaf á jólin. Hún heitir Bótagerði þessi gata af því þetta er bútasaumur-og nú er ég í Hveragerði. Þetta er eitthvað svo fallegt. Krakkarnir fá í skóinn svona, í lítil hús.“

Ætlar að slökkva á símanum eftir törnina

Halldór segist ætla í verðskuldað jólafrí eftir sýningatörnina og slökkva á símanum. Svo taka við önnur verkefni á nýju ári. „Ég er að semja fullt af tónlist, klassíska tónlist. Ég er að gera píanóplötu sem ég á eftir að vinna í og á að koma út snemma á árinu. Ég er vanur að semja fyrir aðra en nú ætla ég að prófa að semja bara fyrir sjálfan mig. Þannig að það er svolítið skemmtilegt og alls konar önnur verkefni á næsta ári.“

Nýjar fréttir