Esther Ýr Óskarsdóttir er ung og upprennandi listakona frá Selfossi. Hún starfar sem regluvörður hjá Heimum fasteignafélagi en stundar myndlist í frítíma sínum. Hún hefur vakið athygli á verkum sínum undanfarið og er komin í samstarf við ABC barnahjálp.
Fær innblástur úr íslenskri náttúru
Esther Ýr hefur mikinn áhuga á myndlist og segist hafa teiknað og málað frá því hún man eftir sér. „Myndlistin hjálpaði mér talsvert þegar ég var í námi en ég er með mjög myndrænt minni og fannst því mjög gott að teikna upp námsefnið, þegar það var hægt.“
Hún fær innblástur mest úr íslenskri náttúru og teljast verkin hennar til abstrakt þar sem hún leggur áherslu á form, liti og áferð frekar en að endurskapa raunverulegar myndir. „Það sem mér finnst skemmtilegast við þennan stíl er að hann leyfir áhorfandanum að túlka verkið á sinn hátt og getur verkið vakið upp mismunandi tilfinningar hjá tveimur manneskjum sem eru að horfa á sama verkið á sama tíma,“ segir Esther Ýr.
Var lengi að safna kjarki til að sýna verkin sín
Esther segir viðtökurnar við verkunum sínum vera mjög góðar og það hafi komið henni skemmtilega á óvart. „Ég var lengi að safna kjarki til að sýna verkin mín, en það hefur verið mjög hvetjandi að sjá hversu jákvæð viðbrögðin hafa verið.“
Hún segir það ganga ágætlega að sinna bæði starfi sínu og listinni. „Ég hef alltaf litið á listina sem áhugamál og form af hugleiðslu. Ég reyni að sinna listinni þegar tími gefst, þá sérstaklega á tímum þar sem er mikið að gera í vinnunni eða þegar ég þarf sérstaklega að ná að tæma hugann.“
Í samstarfi við ABC barnahjálp
ABC barnahjálp hafði nýverið samband við Esther þar sem henni var boðið að taka þátt í samstarfsverkefni með þeim. „Ég sló strax til, því það er fátt betra en að láta gott af sér leiða, sérstaklega í svona verðugu málefni,“ segir Esther.
„Núna fyrir jólin hóf ABC barnahjálp sölu á prentverki eftir mig en allur ágóði af sölunni fer til ABC barnahjálpar og fer hagnaðurinn í að útvega börnum menntun, heilbrigðisþjónustu og máltíðir til að efla sjálfbærni þeirra. Hægt er að nálgast prentverkin á heimasíðu ABC barnahjálpar, www.abc.is.“
Notast við kol og kaffi
Esther stefnir á að halda sýningu í mars eða apríl á verkum sem hún er að vinna að um þessar mundir. „Ég er að vinna í nýrri línu þar sem ég notast mikið við kol og kaffi.“
Hún segist ætla að halda áfram að þróa stílinn sinn þegar tími gefst til og vonandi halda sýningar hérlendis.
Hægt er að nálgast verkin hennar Estherar á vefsíðunni hennar www.estheryr.is og á Instagram-síðunni @esther.yrr. „Ég mæli sérstaklega með að kíkja á Instagram en ég er með skemmtilegan gjafaleik í gangi núna og mun draga út einn heppinn vinningshafa sunnudaginn 15. Desember,“ tekur Esther fram.
Tilvalin jólagjöf
Að lokum segir Esther listaverkin vera frábæra jólagjöf. „List er held ég alltaf góð og persónuleg gjöf en ég býð einnig upp á gjafabréf sem eru tilvalin í jólapakkann eða við önnur tækifæri, en þá getur sá sem fær gjöfina valið sér það verk sem hentar honum best.“