0.6 C
Selfoss

Andalæri með sætkartöflumús og eplasalati

Vinsælast

Karl Ágúst Hanniblasson er matgæðingur vikunnar.

Ég átti að þakka honum Jóni Einari fyrir að hafa bent á mig en satt best að segja er mér þakklæti ekki efst í huga á þessari stundu. Þau sem þekkja mig vita nefnilega að ég er miklu betri í að smakka matinn heldur en að matreiða. Hins vegar tek ég áskoruninni og með góðri hjálp hendi ég hér í rétt sem bæði getur verið tilvalinn sunnudagsmatur en einnig finnst mér ég oft finna jólabragð af þessum rétti. Ég býð ykkur því upp á andalæri með sætkartöflumús og eplasalati.

Andalæri er fljótlegur og þægilegur matur, hægt að kaupa í niðursuðudós í t.d. Krónunni og er ódýrari en Dominos-pizzur fyrir fjölskylduna.

Andalæri

Andalærin veidd upp úr dósinni og reynt að skafa sem mest af fitunni af (fínt að geyma dósina í stofuhita fyrir eldun).

Skella smá salti og pipar á lærin

Inn í ofn á 180°C og blástur í ca 15-20 mín.

Svo er gott að setja þær smá stund undir grillið í ofninum til að fá stökka fitu áður en lærin eru borin fram.

Sætkartöflustappa

Sætar kartöflur (t.d. 4 lífrænar)

Smjör (1 – 2 msk)

Vanilludropar / vanillusykur (1/2 tsk en má sleppa)

Aðferð

Skræla sætu kartöflurnar, skera í bita og gufusjóða í þar til þær eru tilbúnar. Má líka alveg sjóða þær í vatni. Svo eru þær stappaðar saman við smjörið og vanillubragðefnið (ef það er valið) og skellt á borðið með lærunum. Það er alveg hægt að gera hana flóknari með einhverju kornflex-púðursykursdæmi ofan á en mér finnst hún bara best svona.

Eplasalat

5 græn epli

Kanill/Kanilsykur

Lítill rjómi

Aðferð

Skræla epli, skera þau í litla bita og setja í skál. Skella dassi af kanil (sykri) yfir og hræra saman.

Þeyta rjómann og blanda saman við eplin. Voilá, salatið er tilbúið.

Tengdamamma mín er svo oft með appelsínusósu með þessu en ég fæ hana bara alltaf tilbúna frá henni svo þið verðið bara að heyra í henni ef þið viljið sósu með. Annars er sósan ekki nauðsyn.

Að lokum vil ég skora á vin minn og ástríðukokkinn Arnar Guðjónsson að koma með næstu uppskrift.

Nýjar fréttir