5.6 C
Selfoss

Jólaandi á Byggðasafni Árnesinga í desember

Vinsælast

Jólaandinn mun svífa yfir vötnunum á Byggðasafni Árnesinga í desember. Gömul jólatré skreytt lyngi og ljósum, kórsöngur, ljúf stofustemning, ullarvinna, barnabókastund, músastigar og jólasveinabrúður í felum. Allt þetta og miklu meira verður hægt að upplifa á aðventunni í Húsinu á Eyrarbakka og ókeypis aðgangur. Opið verður sunnudagana 1., 8. og 15. desember klukkan 13:00 – 17:00 og eitthvað nýtt verður á dagskrá alla þessa daga. Jólasýningin okkar í borðstofunni verður á sínum stað og okkar dýrmætu gömlu jólatré verða í forgrunni.

Hin hefðbundna „Skáldastund í Húsinu“ verður 1. desember klukkan 15:00 en þá koma rithöfundar sér vel fyrir í stássstofunni og lesa úr nýútkomnum verkum sínum. Boðið er upp á ólíka höfunda sem allir hafa getið sér gott orð fyrir ritverk sín hvort sem það eru spennusögur, skáldsögur, ljóðagerð eða sagnfræði. Þeir höfundar sem heimsækja okkur í ár verða þau Margrét Lóa Jónsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Erla Hulda Halldórsdóttir, Ragnar Jónasson og Guðrún Eva Mínervudóttir.

Sannkölluð jólaveisla verður í safninu sunnudaginn 8. desember en þá koma Stjörnu-Sævar og Hjalti Halldórsson og verða með bráðskemmtilega barnabókastund. Unglingakór Selfosskirkju undir stjórn Edit Molnár flytur jólalög, ullarmeistarinn Ásthildur Magnúsdóttir kynnir gömul handtök tóvinnunnar og Björgvin Tómasson færir okkur tónlistarundur lírukassans. Jólasýningin rómaða verður auðvitað á sínum stað í borðstofu.

Síðasti almenni opnunardagur fyrir jól verður sunnudaginn 15. desember. Þá ríkir látlaust og hlýlegt andrúm þar sem hægt verður að njóta friðsællar stundar við að föndra músastiga og narta í piparkökur. Líka má reka nefið inn í fjárhúsið og gægjast inn í töfrandi ullarveröld.

Sú hefð hefur skapast að skólakrakkar leggi safninu lið við að skreyta eftirgerðir af gömlum jólatrjám. Unglingar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri skreyta Hrunatréð með lyngi og börn í ólíkum skólum í sýslunni skreyta Miðengistréð. Mikill frumleiki og sköpunarkraftur ríkir í þessu verkefni og er afraksturinn til sýnis á jólasýningu safnsins.

Á þriðjudeginum 3. desember mun safnið opinbera einn jólaglugga sem er hluti af jólaleik Árborgar. Leikurinn gengur út á að finna bókstafi í ólíkum gluggum um allt sveitarfélagið og raða þeim inn í orðagátu. Hægt er að nálgast leikinn sjálfan hjá okkur á opnunartíma en einnig á fjölmörgum stöðum og á netinu. Glugginn mun blasa við dag og nótt.

Byggðasafn Árnesinga býður gesti innilega velkomna og aðgangur er ókeypis.

Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá safnsins.

Byggðasafn Árnesinga.

Nýjar fréttir