5.6 C
Selfoss

Breytum þessu

Vinsælast

Fyrir gamlan hund í pólitík hefur þessi kosningabarátta verið alveg einstök. Þar spilar margt inn í. Við í Viðreisn finnum sterkt fyrir því að þjóðin þráir breytingar. Við höfum um árabil verið pikkföst í sömu hjólförunum þar sem stjórnvöld hafa reynt að telja okkur trú um að allt sé svo frábært og gott og að hagsmunum okkar sé best borgið ef við forðumst samneyti við aðrar þjóðir. Fyrirmyndin gæti helst verið Bjartur í Sumarhúsum sem sumir telja til átrúnaðargoða sinna en mörg okkar höfum lítið álit á. Um leið og við þurfum sífellt að takast á við verkefni dagsins er algjörlega nauðsynlegt að horfa til framtíðar, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir börnin okkar.

Frjálslynd og framtíðarmiðuð

Viðreisn hefur nálgast þessa kosningabaráttu með mikilli virðingu fyrir þeim verkefnum sem þarf að takast á við. Þar er efst á blaði staða heimilanna sem mörg hver standa höllum fæti vegna hárra vaxta og sífellt hækkandi matarverðs. Andleg líðan ungmenna er ekki síður forgangsmál og á því verður að taka með öllum ráðum, útrýma biðlistum og koma börnum í þá meðferð sem þau þurfa á að halda. Börn eiga ekki að vera á biðlistum.

Að standa með rétti fólks til þess að vera það sjálft á að vera sjálfsagt mál. Þar hefur Viðreisn markað sér skýra stefnu og þess vegna líður mér svo vel að skilgreina Viðreisn sem frjálslyndan flokk sem horfir til framtíðar.

Nú er tækifærið

Við finnum það rækilega á ferðum okkar um allt land að þjóðin kallar ákaft eftir þeim breytingum sem Viðreisn boðar. Ráðumst gegn viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs sem mun skila sér í minni verðbólgu og lægri vöxtum bæði fyrir ríkissjóð og heimilin í landinu.

Að skynja þennan vilja til breytinga út um allt samfélag vekur upp vonir um að hér verði hægt að stíga ákveðin skref fram á við. Fyrir okkur öll.

Þjóðin á það skilið. Breytum þessu og breytum þessu saman.

Hægt er að fylgjast með ferðum og viðburðum Viðreisnar í Suðurkjördæmi á Instagram-inu vidreisn.sudur

Guðbrandur Einarsson,

oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir