5.6 C
Selfoss

Upplestur á íslenskri sögu á Brimrót korter fyrir kosningar

Vinsælast

Næstkomandi miðvikudag, korter fyrir kosningar, 27. nóvember, verður upplestur á Brimrót á Stokkseyri á vegum Bókabæjanna austanfjalls. Upplesturinn hefst kl. 17.30 og er í samvinnu við Sögufélagið sem gefur út einkar áhugaverðar bækur um íslenska sögu í jólabókaflóðinu.

Þetta er seinni upplestur af tveim en fyrri upplesturinn fór fram á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Þá komu þeir Hrafnkell Lárusson og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson og lásu upp úr bókum sínum; Lýðræði í mótun og Með harðfisk og hangikjöt að heiman.

Á þessum upplestri verður lesið uppúr bók Skafta Ingimarssonar Nú blakta rauðir fánar. Bókin fjallar um upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi á tímabilinu 1918–1968. Saga hreyfingarinnar er skoðuð í ljósi íslenskrar þjóðfélagsþróunar og alþjóðlegra hugmyndastrauma. Kannað er úr hvaða jarðvegi hreyfingin var sprottin, skoðað hverjir studdu hana og hvers vegna og sýnt hvernig fámennum hópi íslenskra kommúnista tókst að gera flokk sinn að fjöldahreyfingu, ólíkt því sem gerðist í flestum nágrannalöndum. Valdabaráttan innan Kommúnistaflokks Íslands (1930–1938) og Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins (1938–1968) er skoðuð og starfsemi flokksdeilda og sósíalistafélaga víðs vegar um landið könnuð, með hliðsjón af viðvarandi togstreitu milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar, sem fram kom í starfi hreyfingarinnar.

Guðmundur Jónsson mun einnig fjalla um bókina Ástand Íslands um 1700 sem hann ritstýrði ásamt fleirum. Hvernig var að búa á gamla Íslandi, landi bænda og sjómanna, höfðingja og almúgamanna? Í bókinni eru kynntar nýjar rannsóknir á íslenska bændasamfélaginu í upphafi 18. aldar og rætt um hugmyndir fræðimanna um það.

Árið 1702 sendi Danakonungur rannsóknarnefnd til Íslands til að gera úttekt á ástandi lands og þjóðar. Nefndin tók saman manntal, kvikfjártal og jarðabók, sem veita einstaklega nákvæmar upplýsingar um lífskjör Íslendinga. Fjölskyldur og heimili, byggð og búsvæði, jarðaskipan og ólík húsakynni fólks birtast ljóslifandi í þessum heimildum. Lýst er stöðu og hag ólíkra stétta og hópa allt frá höfðingjum til lausingja og ómaga. Eignarhald á jörðum er kannað og leitaði svara við spurningunni: Hverjir áttu Ísland?

Í upplestri sínum mun Guðmundur tengja umfjöllunarefni bókarinnar við Stokkseyri og Árnessýslu.

Upplesturinn verða eins og áður segir á Brimrót, í félagsheimilinu Gimli, Hafnargötu 1, Stokkseyri, miðvikudaginn 23. nóvember. og byrjar kl. 17.30.

Léttar veitingar verða í boði hússins.

Nýjar fréttir