5.6 C
Selfoss

Hamarinn í Hveragerði

Vinsælast

Hamarinn í Hveragerði er eitt af einkennum og perlum bæjarins og sést vel frá efri hluta Kamba. Við Hamarinn hefur myndast útivistarparadís, þéttur skógur með hlykkjóttum göngustígum. Fyrstu trén voru gróðursett þar fyrir um 60 árum, en það gerðu barnaskólabörn að vori við lok skólatímabilsins í þegnskyldu til samfélagsins. Skógræktarfélag Hveragerðis tók síðar við keflinu og hélt ræktuninni áfram, ásamt trjárækt á stóru landsvæði í norðurhlíðum Kamba.

Hlíðar Hamarsins snúa til suðurs mót sólu. Klettarnir gleypa í sig sólargeislana sem laumast milli trjágreinanna, klettarnir hitna og endurkasta hitanum til trjánna. Á sama tíma verndar Hamarinn með hæð sinni trén fyrir kaldri norðanáttinni. Gróðursvæðið var því kjörlendi fyrir tré og hinn hraði vöxtur þeirra ber þess vott. Því miður sjást suðurhlíðar Hamarsins vart lengur vegna trjáa þegar horft er til hans, hvorki frá láglendi né frá útsýnisstað í Kömbunum. Það er komið of mikið af stórum trjám og þörf á grisjun á nokkrum völdum stöðum. Það yrði bara til bóta ef mynduð yrðu rjóður í þessum þétta skógi svo sólin gæti sent geisla sína þangað, en einnig svo bergið sæist, því bergið er líka hluti af náttúrunni. Í dag eru tvær uppgönguleiðir upp á Hamarinn. Annars vegar tiltölulega auðveld leið á austurhlið hans við kaldavatnstankinn og hins vegar um miðjan Hamarinn á suðurhlið. Þessar uppgönguleiðir eru þó ekki hættulausar og ekki ráðlegt að fara upp á Hamarinn þær leiðir með börn. Þeir sem ekki komast á fæti upp á Hamarinn geta fylgt ökuslóð sem hefst austan við íþróttasvæðið þar sem Hamarshöllin stóð. Þegar upp á Hamarinn er komið blasir við frábært útsýni yfir Hveragerði og stundum jafnvel til Surtseyjar og Vestmannaeyja.

Lagt er til að bæjarfélagið Hveragerði bæti úr þessum „ágöllum“ með því að grisja skóginn (náttúran er ekki bara tré) og gera uppgönguleiðirnar öruggari og greiðfærari. Útsýnið yfir Hveragerði, frá efsta hluta Hamarsins, er í einu orði sagt frábært. Þar mætti koma fyrir hringsjá og korti af Hveragerði ásamt léttri varnargirðingu á klettabrún. Þessar endurbætur munu leiða til þess að fleiri gætu notið náttúruupplifunar, en það fellur vel að aðalmarkmiðum væntanlegs aðalskipulags Hveragerðis.

Róbert Pétursson,

Íbúi í Hveragerði.

Nýjar fréttir