5.6 C
Selfoss

Nýir eigendur taka við Pylsuvagninum á Selfossi

Vinsælast

Nýir eigendur skrifuðu undir kaupsamning á Pylsuvagninum á Selfossi í dag. Það eru hjónin Fjóla Kristinsdóttir, fyrrum bæjarstjóri Árborgar, og Snorri Sigurðarson sem taka við rekstrinum. Þau taka við honum 1. janúar 2025.

Fjóla segir í samstarfi við Dagskrána að þau séu spennt fyrir framhaldinu og að þau ætli sér að halda starfseminni óbreyttri. „Ég er búin að vera að ræða við aðila til þess að vera rekstrarstjóri hérna. Við erum alveg ákveðin í því að það verði ráðinn rekstarstjóri til þess að taka við rekstrinum.“

Ingunn Guðmundsdóttir, einn stofnandi Pylsuvagnsins, segist mjög sátt með söluna. „Ég er búin að vera að hugsa þetta í tvö ár og ég er bara alveg tilbúin. Ég er svo sátt með kaupendur. Þau ætla ekki að breyta neinu. Hún vann hjá mér hún Fjóla í gamla daga og ég er bara mjög sátt. Þau eru heimafólk.“

Pylsuvagninn var stofnaður árið 1984 og var þá fimm fermetra vagn. Eftir því sem hann varð vinsælli var hann stækkaður meira og meira og er hann í dag einn vinsælasti veitingastaðurinn á Selfossi.

Ingunn Guðmundsdóttir, Fjóla Kristinsdóttir, Snorri Sigurðarson og Þórdís Sólmundardóttir.
Ljósmynd: DFS.IS/EHJ.

Nýjar fréttir