5.6 C
Selfoss

Evrópudagur handleiðslu

Vinsælast

Evrópudagur handleiðslu er 21. nóvember. Handís, fagfélag handleiðara á Íslandi, er aðili að Evrópusamtökum handleiðara og því er deginum fagnað á Íslandi.

Hver er faghandleiðari?

Faghandleiðari hefur lokið námi í handleiðslu. Námið er þverfaglegt framhaldsnám til diplómu og hefur um árabil verið kennt hér á landi. Inntökuskilyrði hafa verið löggild starfsréttindi á sviði mennta-, heilbrigðis-, og félagsvísinda eða frá guðfræði- og trúarbragðadeild. Að auki þarf viðkomandi að búa að starfsreynslu og hafa sjálfur verið töluvert í handleiðslu. Námið er að hluta til fræðilegt en að miklu leyti byggir það á klínískri þjálfun. Að námi loknu hefur handleiðarinn öðlast hæfni til að veita handleiðslu í faglegu starfi, hvort sem er einstaka fagmanni og stjórnanda eða innan stofnana og fyrirtækja.

Hvað gerir faghandleiðari?

Handleiðsla er aðferð til að þess að efla fagmennsku, vernda fagmanninn og tryggja gæði í þjónustu. Hún hjálpar við að greina á milli starfs og einkalífs. Væntingar handleiðsluþega, markmið og tilgangur handleiðslunnar ráða mestu um hvaða gagnreyndu nálgun faghandleiðari beitir. Hvort hann velur hlutverka- eða ferlislíkan, þroskalíkan eða samþætta nálgun.

Einstaka handleiðsluþegar vilja til dæmis átta sig á áhrifum þjónustuþega á þá, greina hvernig uppvöxtur mótar nálgun í starfi, rýna í samskipti, vinna með álag eða einfaldlega þróa fagmennsku sína. Vinnustaði langar að bæta þjónustu, þróa vinnustaðamenningu, takast farsællega á við breytingar, slípa saman þverfagleg teymi eða ná árangursríkara samstarfi við aðrar stofnanir. Hér er aðeins tæpt á örfáum dæmum því óskirnar eru margvíslegar.

Nær faghandleiðari árangri?

Árangur af handleiðslu er bundinn markmiðum og tilgangi sem handleiðari og handleiðsluþegi sammælast um í upphafi handleiðslusambands. Best er ef endurgjöf er regluleg og tíð. Hægt er að ljúka handleiðslutíma með því að gefa handleiðsluþega tækifæri til að segja til um gagnsemi tímans. Ef þannig vill til staldrar handleiðari jafnvel við í miðjum handleiðslutíma.

Einkum er metið hversu skýrar áherslur eru í handleiðslunni, hversu góður skilningur ríkir milli aðila, hvort gagn sé að handleiðslunni og, ef um hóp eða teymi er að ræða, hvort handleiðari hafi skilning og færni í að stýra umræðum og samskiptum. Um hvað er verið að biðja? Er handleiðslan á réttri leið?

Fagaðili sem sækir reglulega handleiðslu eykurlíkurr á árangri þar sem handleiðsla snýst um hans lærdóms- og þroskaferli. Hið sama má segja um stofnanir sem innleiða handleiðslustefnu. Mat á árangri er ótvírætt fyrir handleiðarann. Hreinskilið og rökstutt mat hjálpar honum að auka gæði handleiðslunnar sem hann veitir.

Þetta hraðsoðna greinarkorn er til að fagna Evrópudegi handleiðslu og hvetja fagfólk og stjórnendur til að kanna möguleika faghandleiðslu fyrir sig og stofnanir sínar.

​​​​​Þórunn Jóna Hauksdóttir,

​​​​nemaaðild að Handís, fagfélagi handleiðara á Íslandi.

Nýjar fréttir