5.6 C
Selfoss

Fjármögnun Ölfusárbrúar tryggð og framkvæmdir hefjast innan skamms

Vinsælast

Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta hafist eftir að Alþingi samþykkti í dag nauðsynlega lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun brúarinnar og vegtenginga. Undirbúningur verksins er kominn vel á veg og fyrsta skóflustunga vegna framkvæmdanna verður tekin miðvikudaginn kemur, 20. nóvember. 

Með lagabreytingunni bætist við nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020 (lagt fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld). Með ákvæðinu er fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við innviðaráðherra, heimilt að undirgangast skuldbindingar fyrir ríkissjóð vegna útboðs á brú yfir Ölfusá og tengdum vegum á hringvegi gegn því að gjaldtaka af umferð um hana standi undir kostnaði í heild eða að lágmarki 50%.

Áætlanir gera eftir sem áður ráð fyrir að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar að fullu með veggjöldum og því er heimildin hugsuð sem varúðarráðstöfun. Í nefndaráliti sínu um fjárlög 2025 segir meirihluti fjárlaganefndar Alþingis brýnt að veggjöld standi undir kostnaði að langmestu leyti og ítrekar að framkvæmdin hafi engin áhrif á útgjöld samkvæmt fjárlögum fyrr en að framkvæmdatíma loknum.

„Það er ánægjulegt að gengið hafi verið frá útfærslu vegna fjármögnunar Ölfusárbrúar og tengivega við hana. Vegagerðin og verktakar fá nú grænt ljós til að hefja framkvæmdir. Nýja brúin er lykillinn að því að auka öryggi og greiða umferð fyrir alla landsmenn um Suðurland. Þá færir hún íbúum Selfoss og Suðurlands aukin lífsgæði með því að umferð þjóðvegarins er færð úr miðbænum. Við þurfum góðar brýr fyrir samfélagið okkar og þessi brú er í senn tímabær og glæsileg,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra.

Eykur umferðaröryggi og gjörbyltir umferð

Ný Ölfusárbrú mun gjörbylta umferð um Selfoss og Suðurland allt, auka umferðaröryggi, m.a. með því að aðskilja akstursstefnur, stytta ferðatíma og draga verulega úr umferðartöfum og mengun í bænum, styrkja atvinnulíf og efla lífsgæði íbúa og gesta á Suðurlandi.
Núverandi brú var byggð fyrir tæpum 80 árum og hefur þjónað sínu hlutverki með glæsibrag. Umferð hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum með fjölgun íbúa og ferðamanna á Suðurlandi. Daglega fara nú um 14.500 ökutæki um brúna en til framtíðar má gera ráð fyrir að umferð um svæðið muni aukast enn frekar með fjölgun íbúa og ferðafólks.

Framkvæmdirnar eru hluti af verkefninu Hringvegur um Ölfusá sem felst í að færa Hringveginn út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Byggð verður 330 metra löng brú, nýr 3,7 km vegarkafli auk um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Gerð verða ný vegamót austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Auk umferðar mun brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt.

Fjárhagslega sjálfbært verkefni

Áætlaður framkvæmdakostnaður við byggingu Ölfusárbrúar og tengda vegi í heild sinni er 14,3 ma.kr. á verðlagi ársins 2024. Þar af er brúin talin kosta um 8,4 ma.kr. Fjármagnskostnaður (verðbætur til verkloka og framkvæmdafjármögnun) vegna lántöku er áætlaður 3,6 ma.kr. Samtals er því heildarkostnaður við verkið áætlaður um 17,9 ma.kr. sem ætlunin er að standa undir með gjaldtöku af umferð

Verktakafyrirtækið ÞG verk bauð fyrr á árinu í hönnun, byggingu og fjármögnun brúarinnar á framkvæmdatíma verkefnisins á nýju vegstæði yfir Ölfusá. Verkefnið tekur mið af samvinnuverkefnum (PPP) þar sem einkaaðili tekur á sig áhættu er varðar útfærslu og fjármögnun tiltekinnar framkvæmdar. Markmiðið með samvinnu stjórnvalda og einkaaðila er að flýta þjóðhagslega mikilvægum samgönguframkvæmdum.

Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á nýju brúna á árinu 2028. Þegar brúin opnar verður heimilt að innheimta veggjöld en upphæð mun taka mið af því að verkefnið verði fjárhagslega sjálfbært. Vegfarendur hafa eftir sem áður val um aðrar leiðir á svæðinu.

Þessi leið við fjármögnun felur í sér að hægt er að flýta framkvæmdum við Ölfusárbrú án þess að tefja aðrar framkvæmdir við samgönguinnviði sem fjármögnuð eru beint af ríkinu enda muni veggjöld af umferð standa undir kostnaði.

Nýjar fréttir