5.6 C
Selfoss

Upplestur íslenskrar sögu á degi íslenskrar tungu

Vinsælast

Næstkomandi laugardag, á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, verður upplestur á Brimrót á Stokkseyri á vegum Bókabæjanna austanfjalls. Upplesturinn er í samvinnu við Sögufélagið sem gefur út einkar áhugaverðar bækur um íslenska sögu í jólabókaflóðinu.

Upplestrarnir verða tveir en seinni upplesturinn verður 27. Nóvember. Þá kemur Guðmundur Jónsson og fjallar um stórmerkilega bók sem heitir Ástand Íslands um 1700. Einnig verður lesið upp úr bók Skafta Ingimarssonar Nú blakta rauðir fánar.

Á þessum fyrri upplestri kemur Hrafnkell Lárusson og kynnir bók sína Lýðræði í mótun og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson kynnir sína bók Með harðfisk og hangikjöt að heiman. Bækurnar eiga það sameiginlegt að fjalla um lýðræði og mótunarár hins unga Íslands.

Lýðræði í mótun leitast við að skýra hvernig vöxtur félagastarfs og almennari þátttaka í því hafði áhrif á lýðræðisþróun á Íslandi á árabilinu 1874–1915. Í bókinni er sýnt fram á afgerandi þátt félagastarfs við að breyta samfélagsgerð og menningu. Að þróa íslenskt samfélag frá sveitasamfélagi 19. aldar til nútímasamfélags 20. aldar. Við sögu koma bæði þekktir og lítt þekktir einstaklingar.

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson fjallar um þátttöku Íslendinga á Ólympíuleikunum í London 1948. Sumarólympíuleikarnir í London árið 1948 voru merkilegir fyrir margra hluta sakir. Vegna seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu ekki verið haldnir Ólympíuleikar í 12 ár, en aðstæður í London voru erfiðar svona stuttu eftir stríð og stundum er talað um „meinlætaleikana“ af þeim sökum. Þetta voru líka fyrstu sumarleikarnir sem Ísland keppti á eftir lýðveldisstofnun og Íslendingar höfðu metnað til að standa sig vel.

Upplestrarnir verða eins og áður segir á Brimrót, í félagsheimilinu Gimli, Hafnargötu 1, Stokkseyri, laugardaginn 16. nóvember og byrja kl. 13.

Léttar veitingar verða í boði hússins.

Nýjar fréttir