5.6 C
Selfoss

Þrjár mæður skipulögðu Hrekkjavökuviðburð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Vinsælast

Þrjár mæður í Skeiða- og Gnúpverjahreppi tóku sig saman og ákváðu að skipuleggja alvöru fjölskylduviðburð fyrir sveitunga sína í tilefni af hrekkjavökunni.

Okkur langaði að taka hrekkjavökuna upp á næsta plan, byrjuðum á að stofna óformlega Hryllingsfélag Skeiða- og Skelfingarhrepps og fórum að henda fram ýmsum hugmyndum. En það sem átti að gera þessa hátíð sérstaka og fyrsta sinnar tegundar var að nýta fjárréttir sveitarinnar, Skaftholtsrétt, til að halda viðburðinn. Einnig vildum við auðvelda foreldrum aksturinn fyrir grikk eða gott og safna fólki saman og því var hægt að panta dilka til að skreyta og nýta fyrir grikk eða gott.“

Ljósmynd: Aðsend.

Til að krydda upp á það var haldin skreytingakeppni og sigurvegarinn fyrir best skreytta dilkinn fékk vegleg verðlaun, styrkt af hinum ýmsum fyrirtækjum. Þátttaka í dilkunum var mjög góð og voru allir dilkarnir ótrúlega flottir og mikill metnaður lagður í að skreyta dilkana hjá þeim sem tóku þátt.

Við vorum með varðeld inni í almenningnum og buðum upp á heitt kakó og sykurpúða til að grilla í eldinum. Einnig var eitt hræðilegt draugahús fyrir lengra komna en það var Félagsmiðstöðin Zero á Flúðum sem sá um það. Selásbyggingar smíðuðu líka völundardraugahús fyrir yngri hetjurnar. Spákona mætti á svæðið og einn dilkur bauð upp á smá afþreyingu fyrir yngstu krílin, sem var minna draugalegt fyrir þau.

Ljósmynd: Aðsend.

Veðrið hefði ekki getað verið betra fyrir þetta og höfðu gestir það ansi huggulegt innan um draugana. Mikil og skemmtileg stemning myndaðist og fór mætingin fram úr okkar björtustu vonum en sennilega hafa komið á svæðið yfir 150 manns en það var erfitt að kasta tölu á mannfjöldann í myrkrinu.

Ljósmynd: Aðsend.

Markmiðið náðist fullkomlega, að fjölskyldur, fólk á öllum aldri, gæti komið og eytt gæðastund saman og fólk þyrfti ekki að rúnta um alla sveitina til að fara í grikk eða gott, eða leita lengra eins og á Selfoss.

Ljósmynd: Aðsend.

Sérstakar þakkir til allra þeirra sem styrktu okkur á einn eða annan hátt, með vinnu og tíma, gjöfum og má þar nefna eftirfarandi aðila:

Félagsmiðstöðin Zero á Flúðum

Selás-Byggingar

Korngrís

Garðyrkjustöðin Reykás

Icewear

Made in Iceland

Fóðurblandan

Apótekarinn

Stóra-Sandvík: fyrir rófur sem við notuðum á föndurkvöldi sem var haldið ca 2 vikum fyrir hrekkjavöku. Til að íslenska viðburðinn smá þá nýttum við séríslenskar rófur til að skera út í stað graskers.

Við viljum þakka kærlega fyrir viðtökurnar og erum fullkomlega bjartsýnar á að við endurtökum leikinn aftur á næsta ári

Stjórn Hryllingsfélags Skeiða- og Skelfingarhrepps,

Rakel, Hrönn og Eydís

Nýjar fréttir