5.6 C
Selfoss

„Við erum ekki að fara í verkföll til þess að vera skemmtileg“

Vinsælast

Samstöðu- og baráttufundur tón-, leik-, grunn- og framhaldsskólakennara fór fram í Sunnulækjarskóla í gær. Mikill fjöldi fólks mætti á fundinn til þess að sýna samstöðu.

Kolbrún Guðmundsdóttir, formaður Kennarafélags Suðurlands, ávarpaði fundinn. Hún talaði um að kennarar vildu ná fram þeim jöfnuði sem lofað var í samkomulagi sem gert var árið 2016.

„Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í Kastljósþætti liðinnar viku að honum þætti fróðlegt að vita hvað almenni markaðurinn myndi segja ef forsendum væri snúið við. Að fyrst hefði verið farið í jöfnun launa milli markaða og það gert á einu ári frá gerð samkomulagsins. En átta árum seinna væru lífeyrisréttindin enn ekki orðin jöfn eins og lofað hefði verið í upphafi. Hver skyldu viðbrögð samfélagsins verða þá? Krafa kennara er nefnilega sú að staðið verði við gerða samninga.“

Kolbrún Guðmundsdóttir.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Hún minntist á að það vanti kennara til starfa og til þess að laga það ástand þurfi launin að vera sambærileg launum sérfræðinga á almennum markaði.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður félags framhaldsskólakennara, tók til máls. Hann var ánægður með fundinn.

„Ég vona að baráttufundirnir verði fleiri, vegna þess að ég held að við munum standa í þessari baráttu alllengi. Kröfur okkar hafa verið skýrar mjög lengi. Að halda því fram að kröfur hafi ekki komið fram er útúrsnúningur. Látið ekki halda öðru fram.“

Guðjón er einn af þeim sem sitja við samningaborðið.

„Það verður bara að viðurkennast að við höfum frá mjög litlu að segja. Fólkið sem við sitjum frammi fyrir á þessum fundum hefur einfaldlega ekki umboð til þess að semja við okkur ennþá. Við erum ekki að semja við samninganefndirnar heldur eru það yfirmenn þeirra sem færa þeim það umboð að semja og það er einfaldlega ekki komið ennþá. Við þurfum að berjast rækilega og sýna samstöðu alls kennarasambandsins til þess að ná þessu fram. Þetta verður langvinn og erfið barátta en við ætlum að sigra hana.“

Guðjón Hreinn Hauksson.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands, segir það erfitt að vera í verkfalli. „Við höfum verið í allsherjarverkfalli. Það var árið 2014. Það var erfitt en það var einfaldara af því þá voru allir framhaldsskólar á landinu í verkfalli.“ Hann sagði samstöðuna skipta miklu máli og að allir kennarar væru saman í þessu verkefni.

Að lokum tók Haraldur Gíslason, formaður félags leikskólakennara, til máls. Hann sagði baráttuna vera harða, sérstaklega fyrir leikskólakennarana sem séu í verkfalli. Þeir þurfi að glíma við óánægða foreldra og svara fyrir verkfallið.

„Við erum ekki að fara í verkföll til þess að vera skemmtileg. Verkföll eru í eðli sínu bögg, þau eru í eðli sínu vond. Það er bara þannig að þetta er neyðarréttur sem við höfum og við eigum fullan rétt á því að nýta okkur hann.“

Hann telur að það hafi aldrei átt að fara í þetta verkefni af alvöru.

„Staðan er þannig að átta árum eftir að undirritað var samkomulag um laun á milli markaða er búið að gera eitt áfangasamkomulag sem komu til nokkurra starfsheita í grunn- og leikskólum og einhverra framhaldsskóla. Í tilfelli grunnskólans er þetta greiðsla frá átta til tíu þúsund krónum. Þetta eru nú öll ósköpin sem búið er að gera á þessum átta árum.“

Haraldur Gíslason.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Hann minntist einnig á hversu dásamleg samstaða kennara sé.

„Það var dásamlegt að upplifa það á Sauðárkróki þegar ég kom þangað, að hinir lötu kennarar sem nenna ekki að gera neitt vöknuðu klukkan fimm um nóttina á Akureyri til þess að keyra Sauðárkrók og standa verkfallsvörð með kennurum í leikskólanum þar. Það var líka dásamlegt að fá framhaldsskólakennarana og tónlistarskólakennarana á svæðið með okkur að standa þennan verkfallsvörð. Það sýndi hvað við getum verið sterk saman.“

Nýjar fréttir