5.6 C
Selfoss

Fjölmenni mætti á Fjölmenningarhátíð

Vinsælast

Fjölmenningarhátíð Uppsveita Árnessýslu var haldin í Aratungu sunnudaginn 3. nóvember. Hátíðin heppnaðist vel og um 500 gestir mættu og nutu dagsins.

Á hátíðinni var fjölbreytt dagskrá með kynningarbásum þar sem gestir gátu fræðst um 17 ólík lönd, smakkað hefðbundna rétti og lært um menningararf frá ýmsum heimshornum. 20 félög skráð sig til þátttöku og kynntu þau starfsemi sína. Kór var á staðnum sem söng nokkur lögásamt raftónlistarmanni sem spilaði einnig nokkur lög. Björgunarsveit sýndi dróna og önnur tæki úti, slökkviliðsbílar voru til sýnis og íslensk glíma sýnd. Þá var spiluð tónlist frá öllum löndunum.

Verkefnastjórar hátíðarinnar voru Lína Björg Tryggvadóttir, byggðaþróunarfulltrúi í Uppsveitum og Gunnar Gunnarsson, verkefnastjóri Heilsueflandi Uppsveita. Þau byrjuðu að hugsa um hátíðina og sækja um styrki fyrir rúmu ári síðan. „Við fengum styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands en sá styrkur gerði hátíðina mögulega og þökkum við Uppbyggingarsjóði kærlega fyrir stuðninginn,“ segir Lína Björg í samtali við Dagskrána.

„Fjölmenningarhátíðin var ógleymanlegur viðburður, þar sem 17 lönd kynntu menningu sína ásamt fjölmörgum aðilum sem veita þjónustu eða standa fyrir áhugamannaklúbbum í  samfélaginu. Þessir aðilar gerðu hátíðina eftirminnilega og án þeirra hefði hún einfaldlega ekki orðið að veruleika,“ segir Lína.

Hún segir hátíðina hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið. „Hún var sett á laggirnar með það markmið að styrkja tengsl innan samfélagsins, auka samheldni og kynna þau tækifæri sem samfélagið hefur upp á að bjóða fyrir fólki af erlendum uppruna en á sama tíma gaf hún öllum tækifæri til að fagna fjölbreyttri menningu og gera hana sýnilega.“

Hún segir þessa hátíð ekki vera endapunkt, heldur upphafið að einhverju nýju. Stofnuð verður Facebook-síða þar sem allir þátttakendur sem kynntu sína menningu munu tengjast og geta haldið áfram að vinna saman. Vonin er að þetta muni styrkja tengsl og stuðla að frekari samvinnu innan samfélagsins og þeirra á milli.

„Eftir þessa miklu þátttöku í gær er þegar farið að hugsa um næstu hátíð sem vonandi verður haldin á næsta ári, en ljóst er, að ef að henni verður, þá þarf hún að fara fram í stærri sal til að taka á móti öllum.“

„Við erum að vonum í sjöunda himni eftir þessar móttökur og viljum þakka öllum sem komu og sýndu hátíðinni áhuga. Við hlökkum til að vinna áfram að því að gera Uppsveitirnar að fyrirmyndar fjölmenningarsamfélagi,“ segir Lína að lokum.

Nýjar fréttir