5.6 C
Selfoss

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Vinsælast

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarbúar og nærsveitafólk er boðið sérstaklega velkomið þangað nú sem endranær. Í garðinum er hægt og rólega að mótast umgjörð utan um safnbygginguna, sem líta má á sem grunnaðan striga þar sem allt getur gerst, hnitakerfi sem teiknast upp með tímanum og sérhverri heimsókn í garðinn. Þar má hæglega ímynda sér fleiri plöntur, höggmyndir, gjörninga, kakó í brúsa, litríki, lautarferð og sólber í munni, vinafund, teikniæfingar, söngstund, sólböð og snjóengla.

​Hvatinn að hreyfingunni kom frá greinahöfundi sem hefur unnið að fjölbreytilegum verkefnum á fagsviði myndlistar og hönnunar um langt árabil og útskrifaðist nýlega úr lífrænni ræktun við Garðyrkjuskólann á Reykjum. Ég setti mig í samband við safnstjóra, Kristínu Scheving, með tillögu að langtímaverkefni í garðinum en Kristín var þá þegar með hugann við að glæða garðinn lífi og tók vel á móti frumkvæðinu.

Ljóstillífun og litróf

Sólarorkan sem plöntur nýta sér til ljóstillífunar er á mjög svipaðri bylgjulengd og sú sem mannsaugað greinir sem sýnilegt ljós, litrófið. Þetta er merkileg staðreynd og huglæg tenging á milli garðyrkju og myndlistar sem segja má að sé undirtónn grunnhugmyndarinnar í garðinum, að tengja hann viðfangi safnsins, myndlistinni.

​Myndlist er sennilega víðfeðmasta fagsvið heims því hún takmarkast aðeins af hugðarefnum listamanna og felur þannig í raun í sér öll önnur fagsvið. Myndlistin bráðnar hér kannski inn í garðyrkjuna. Í báðum fögum er spáð í innri og ytri aðstæður, samsetningu og samspil, ríkjandi öfl, hið efnislega og skynræna, tímann og ekki síst fegurðina. Litir, form, efni og áferð, framvinda og jafnvægi eru gjarnan meðal þess sem er listamönnum og ræktendum mikilvægt. Þessir þættir eru hafðir í huga við þróun garðsins þar sem helsta markmiðið er að hann geti orðið vettvangur fyrir nærandi stundir, staður þar sem gestir geta ræktað tengingu sína við jörðina, skerpt skilningarvitin og pælt í myndlistinni. Máttur garðyrkjunnar – og myndlistarinnar – skal eigi vanmetinn, hann er margslunginn og ætti ávallt að hlúa vel að.

​Plönturnar í garðinum​

Hugað er að orkustöðvum líkamans með sínu innra litrófi og þar með er áhersla á fjölbreytilegar ætiplöntur og lækningajurtir. Fyrsti áfangi var unninn sumarið 2023 þegar berjalundur var útbúinn vestan megin við safnbygginguna og hefur hann að geyma nokkrar tegundir sólberja og rifsberja úr Nátthaga, bestu myntu bæjarins sem Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur og kennari við Garðyrkjuskólann var svo hugulsamur að gefa afleggjara af auk villijarðarberja sem eiga vonandi eftir að breiða úr sér. Á sömu hlið safnsins voru mótuð þrjú hringlaga beð og í hvert þeirra komið fyrir einu yrki af ígulrós, einnig úr Nátthaga. Austan megin er gamalt trjábelti sem nú er í því meginhlutverki að fóstra ungar trjáplöntur sem settar voru niður og munu vonandi komast á legg áður en þau gömlu hverfa aftur til upprunans. Þar má nú finna fimm tegundir reyniviðar sem hver um sig hefur sín sérkenni í blaðlögun, lit, berjum og áferð.

​Nágrannar reynikvintettsins eru tveir heggir. Við valið á þeim var hugsað til Kristmanns Guðmundssonar rithöfundar og ræktanda (1901-1983) sem ákvað upphaflega að rækta upp fallegan reit í Hveragerði sem verklegan gjörning og andstöðu við eyðileggingu og niðurbrot seinni heimsstyrjaldarinnar sem þá geysaði. Hann bjó við Skáldagötuna í Hveragerði og ræktaði þar mikilfenglegan skrúðgarð og þróaði meðal annars yrki af heggi. Heggirnir og reyniviðurinn koma úr Kjarri en þar eru einnig birkitré sem garðyrkjustjóri bæjarins galdraði fram og ýmis botngróður sem ef óskir rætast mun breiða úr sér og mynda grænt teppi undir ungu trén.

Samstarf við Garðyrkjuskólann á Reykjum

Stofnað var til samstarfs við Garðyrkjuskólann á Reykjum síðastliðinn vetur og úr varð að nokkrir útskriftarnemar í skrúðgarðyrkju, Árný Guðfinnsdóttir, Helena Stefánsdóttir, Ólafur Þórir Auðunsson og Óli Sigurjónsson, unnu lokaverkefni sitt í garðinum. Í sameiningu teiknuðum við upp hlaðin blómabeð sem hægt er að tylla sér á og helst eru ætluð einærum plöntum. Útlit þeirra, umgjörð og staðsetning var hugsuð út frá stöplum sem fyrir eru í garðinum og óreglulegu formi byggingarinnar sjálfrar. Samhliða upphækkaða beðinu var bætt í skjólbelti fyrir suðaustanáttina með stæðilegum reynivið frá Borg og grassófa var komið fyrir í flötinni sem reynist bæði fallegur og þægilegur. Vonir standa til að þessi viðbót hjálpi við að gera garðinn að þægilegum áningarstað í bæjarlandslaginu á komandi árum og einnig til þess að framhald verði á samstarfi við þann mikilvæga skóla sem Garðyrkjuskólinn er.

​Löturhæg framvinda verkefnisins

Í safninu er nú hægt að nálgast ljósmyndir og sendibréf til gesta um verkefnið ásamt yfirlitsteikningu af garðinum með upplýsingum um þær tegundir sem þegar eru í honum. Þar er vöngum velt yfir möguleikum á að nýta garðinn til að skilja og skynja umhverfi sitt betur og þjálfa skilningarvitin.

​Framvinda verkefnisins er hæg í takti við árstíðirnar og vaxtarhraða einstakra plantna og margar hverjar verða fyrst búnar að breiða úr sér eftir fjölda ára. Garðurinn er staður þar sem sólarorkan efnisgerist og vel má ímynda sér hann sem stað til að fylgjast með hringrás lífs og lita, vexti og þroska plantnanna, blómgun, fræmyndun, hnignun, niðurbroti og endurfæðingu.

Lífríkið í garðinum er á sérhverjum tíma fyrirtaks innblástur og ekki síst á mótum árstíða og við endurteknar heimsóknir á ólíkum tímum ársins. Plönturnar hafa nú undirbúið sig og hægt á fyrir veturinn, eitthvað sem við mannfólkið getum tekið okkur til fyrirmyndar. Garðurinn er alltaf opinn og þar er hægt að tylla sér, kúra í sófanum, kjafta og horfa upp í stjörnubjartan himin, stinga fingrunum í moldina, hnoða snjóbolta eða leggjast í grasið, virða fyrir sér liti, form, efni og óravíddir sem gestir eru einmitt hvattir til að gera hvort sem viðkoman er stutt eða löng, að vetri sem sumri.

Edda Kristín Sigurjónsdóttir

Nýjar fréttir