5.6 C
Selfoss

Fundargerðabækur búnaðarfélaga og búfjárræktarfélaga aðgengilegar öllum

Vinsælast

Rafrænn lestrarsalur Héraðsskjalasafns Árnesinga er alltaf að stækka og er nú verið að vinna að því að gera fundargerðabækur búnaðarfélaga og búfjárræktarfélaga aðgengilegar á heimildavef safnsins, myndasetur.is. Héraðsskjalasafnið fékk styrk til verkefnisins frá Þjóðskjalasafni Íslands og er nú þegar nokkur fjöldi bóka orðinn aðgengilegur og því hægt að lesa þær staf fyrir staf í tölvunni heima hjá sér. Eitt af meginhlutverkum héraðsskjalasafna er að taka við og varðveita skjöl opinberra aðila og félagasamtaka sem hafa menningarlegt gildi fyrir héraðið og eru um leið partur af sögu almennings og sveitarfélaga í gegnum ár og aldir, í raun vitnisburður um hvernig nútímasamfélag byggðist upp í sveitunum. Þar spila búnaðarfélög stórt hlutverk. Annað elsta búnaðarfélag sem bundið var við staka sveit var stofnað í Gnúpverjahreppi árið 1847 og hét þá Eystri-Hreppsmanna tún- og jarðabótafélag en gjörðabók þess félags er ein af þeim bókum sem nú eru aðgengilegar á vef. Elsta bókin er því meira en 180 ára gömul.

Áður en hafist var handa við verkefnið var farið yfir hvaða bækur væru komnar til varðveislu á safnið og skoðað hvort það vantaði einhverjar bækur frá félögunum. Ljóst er að það er töluvert magn af fundargerðabókum þessara félaga sem hafa ekki enn ratað á héraðsskjalasafnið og má þá gera ráð fyrir að sumar þeirra liggi enn á bæjum í sinni heimasveit eða hafi glatast. Héraðsskjalasafnið hvetur alla stjórnarmenn búnaðar- og búfjárræktarfélaga í sýslunni til þess að fara yfir stöðuna hjá sínu félagi og athuga hvort ekki megi finna þessar bækur og afhenda þær á skjalasafnið til varanlegrar varðveislu svo fleiri geti nýtt þær við fræðistörf eða sér til skemmtunar. Starfsfólk skjalasafnsins er tilbúið til þess að vera félögunum innan handar og veita aðstoð eða ráðgjöf í tengslum við afhendingu skjala á safnið.

Nýjar fréttir